Umfjöllun og viðtöl: KR - Fjölnir 2-0 | Nú hafði KR betur gegn Fjölni

Andri Már Eggertsson skrifar
KR - Breiðablik, Pepsi max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti.
KR - Breiðablik, Pepsi max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Mjólkurbikarinn fór aftur af stað í kvöld þegar leikið var í 16 liða úrslitum. Aðstæður voru heldur sérstakar í kvöld þar sem spilað var fyrir luktum dyrum og búið að fresta næstu leiki um að minnsta kosti viku. Á Meistaravöllum fengu KRingar Fjölni í heimsókn, ekki var langt síðan þessi lið gerðu jafntefli á þessum velli svo búast mátti við hörkuleik.

Fyrri hálfleikurinn var einn sá allra rólegasti sem ég man eftir í sumar. KR héldu boltanum mikið innan liðs til að byrja með en ógnuðu þó lítið marki Fjölnis sem voru með ungan strák milli stanganna hann Sigurjón Daða Harðason. Þegar tæplega 20 mínútur voru búnar af leiknum fengu KR dauðafæri þar átti Óskar Örn Hauksson góða sendingu á Kristján Flóka sem stóð einn fyrir framan markið en skot hans fór þéttings fast í stöngina.

KR héldu síðan áfram að halda boltanum innan liðs en opnuðu Fjölni lítið sem ekkert, það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks þar sem Kristján Flóki fékk annað dauðafæri, Finnur Tómas átti þar góða sendingu inn fyrir á Kristján Flóka sem var í ójafnvægi og endaði skot hans beint á Sigurjón sem varði.

KR komst síðan yfir þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, Atli Sigurjónsson vippaði yfir Sigurjón þegar boltinn virtist vera á leiðinni inn kemur Óskar Örn og tæklar boltann yfir síðustu senttimetrana og fær markið skráð á sig. KR gengu síðan á lagið með öðru marki þar var Kristján Flóki á ferðinni hann var kominn í góða stöðu inn í teig Fjölnis og setur boltann í fjærhornið. Hann var nýbúinn að klikka á samskonar færi rétt á undan og var því mikill léttir fyrir hann að ná loksins að skora. Fleiri urðu mörkin ekki og var því ljóst að KR höfðu tryggt sér farseðilinn í næstu umferð.

Kristján Flóki Finnbogason skoraði síðara mark KR.Vísir/Daníel

Afhverju vann KR?

KR sýndu það að þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar og eru þeir í gæða flokki fyrir ofan Fjölni. Þeir héldu boltanum vel innan liðsins og voru þolinmóðir í sínum aðgerðum þótt þeir þurftu að bíða eftir að brjóta ísinn. Varnarlega voru KR frábærir þeir gáfu Fjölni ekkert andrými og man ég varla eftir ákjósanlegu færi sem Fjölnir skapaði sér.

Hverjir stóðu upp úr?

Óskar Örn Hauksson var frábær í liði KR í kvöld, hann ógnaði sífellt á vinstri kantinum sem skilaði marki og mörgum færum sem liðsfélagar hans hefðu geta nýtt betur.

Finnur Tómas Pálmason var mjög góður í vörn KR hann gerði vel sem og öll vörn heimamanna í að loka á allt spil Fjölnis og var hann ansi nálægt því að leggja upp mark þegar hann kom með góða sendingu á Kristján Flóka sem nýtti ekki færið sitt.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Fjölnis var enginn, þeim tókst engan veginn að finna pláss milli miðju og varnarlínu KR sem var mjög sterk.

Bakverðir Fjölnis áttu mjög erfitt með kannt og bakvarða spil KR það breytti engu máli hvort það var bakvörður eða kanntmaður sem sótti á þá þeir voru alltaf í vandræðum.

Hvað gerist næst?

Nú grípur okkur nokkur óvissa og frasinn fordæmalausir tímar tekur aftur við. Öllu mótshaldi hefur verið frestað um að minnsta kosti viku og verðum við að bíða og sjá hvenær við fáum næst að sjá fótbolta.

Ásmundur: Vonandi getum við haldið áfram með mótið og þá mætum við klárir

„Menn lögðu mikið í þennan leik, við lögðum þetta þannig upp að þeir myndu vera meira með boltann og við myndum liggja niðri með gott skipulag sem gekk vel í fyrri hálfleik, KR fékk lítið af færum þar sem þeir fundu ekki miklar opnanir. Við vorum samt sem áður ekki góðir sóknarlega og fengum því litla sem enga möguleika líkt og síðast þegar við spiluðum á Meistaravöllum,” sagði Ási um spilamennsku síns liðs.

„Við reyndum að skerpa á sóknarleiknum í hálfleiknum, þegar þeir skoruðu þá fórum við framar á völlinn en náðum samt sem áður ekki að ógna þeim alminnilega sem er hundfúllt, en vinnuframlagið var got þar sem við héldum þeim í skefjum lengi vel en þetta var bara mjög erfitt.”

Ási var ánægður með vinnuframlagið í kvöld og hugafarið sem liðið sýndi en þó var það ekki mikið meira en það þar sem hann var mjög fúll með tapið og að vera dottinn úr Mjólkurbikarnum.

„Það er alveg hægt að skrá mörkin sem KR gerði á einbeitingarleysi hjá okkur þar sem menn duttu svoldið niður á þessum kafla vegna þess að það fór mikill kraftur í leikinn og þá geta menn gleymt sér,” sagði Ási svekktur.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.vísir/bára

Rúnar: Möguleiki að sleppa bikarnum til að klára Íslandsmótið

„Ég er mjög ánægður með liðið í kvöld við vorum þolinmóðir og spiluðum flottan fótboltaleik. Við vissum að það tæki tíma að brjóta þá niður þar sem við lentum illa í þeim í deildinni þar sem við vorum full æstir í okkar aðgerðum en við vorum rólegri í kvöld og náðum að þreyta þá sem skiluðu tveimur mörkum,” sagði Rúnar.

Rúnar hrósaði varnarleik Fjölnis þar sem þeir vörðust vel og gáfu þeim ekki mikið pláss og svæði til að vinna í, hans lið náði síðan að opna þá með talsvert af fyrirgjöfum en það vantaði alltof oft smá vilja til að koma boltanum í netið.

Einsog allir vita hefur mótinu verið frestað um viku og er það ekki alveg komið á hreint hvað skal gera.

„Við þurfum að bíða og sjá hvað gerist í næstu viku hvort liðin fái ekki að halda leik áfram í Pepsi Max deildinni fljótlega eftir 10 ágúst. Ef að það verður lengri bið heldur en talað er um gæti verið eitt af möguleikunum að sleppa bikarnum, en við viljum auðvitað klára bæði mótin og vonandi verður hægt að þétta dagskrána því það kemur niður á öllum liðum nema kannski Stjörnuna sem á eftir að spila fleiri leiki,” sagði Rúnar um framhaldið.

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði Íslandsmeistara KR.vísir/bára

Óskar Örn Hauksson: Ætlum að vinna þennan bikar

„Ég var mjög ánægður með liðið mitt í dag þetta var góður leikur hjá okkur, þetta var líklega okkar besti leikur í talsverðan tíma okkur hefur ekki tekist að vinna síðustu tvo leiki svo það var mjög kærkomið að vinna í kvöld,” sagði Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, ánægður eftir leikinn.

KR sýndi mikinn aga í sínum leik í kvöld þar sem þeir héldu boltanum vel innan lið. Þeir spiluðu upp á sína kosti sem þeir voru ekki búnir að gera í síðustu leikjum sínum.

„Við höfðum trú á því sem við lögðum upp með að gera í kvöld, það var markalaust í hálfleik en þó hefði ég verið til í að vera með eina eða tveggja marka forrystu þegar gengið var til búningsherbergja en mjög sætt að klára þetta 2-0 þar sem þetta var heilt yfir góður leikur hjá okkur í kvöld,” sagði Óskar um spilamennsku liðsins í kvöld.

Óskar Örn vildi ekki óska eftir neinum mótherja í bikarnum þar sem hann vissi ekki hvaða lið höfðu tryggt sér í 8 liða úrslitin. Hann segir að ef KR ætlar að vera bikarmeistari þurfa þeir að vinna öll bestu liðin og er stefna KR að vinna bikarinn og því væri gott að fá heimaleik.

„Það var leiðinlegt loksins þegar við spilum virkilega vel gátu áhorfendur ekki séð leikinn okkar á Meistaravöllum, mér fannst við spila mjög góðan bolta í kvöld og hefðum við átt að skora fleiri mörk,” sagði Óskar Örn aðspurður hvernig var að spila fyrir luktum dyrum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira