Umfjöllun og viðtöl: KA - ÍBV 1-3 | Eyjamenn í 8-liða úrslitin eftir framlengingu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Víðir Þorvarðarson skoraði frábært mark á Akureyri í dag.
Víðir Þorvarðarson skoraði frábært mark á Akureyri í dag. vísir/daníel

Pepsi Max deildarlið KA fékk topplið Lengjudeildarinnar, ÍBV, í heimsókn í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Akureyri í dag.

Eyjamenn komust yfir snemma leiks þegar spænski framherjinn Sito fékk góðan tíma til að athafna sig með boltann nærri marki KA. Það nýtti hann sér til fullnustu og skoraði með stórgóðu skoti.

Eftir 20 mínútna leik jöfnuðu heimamenn metin með marki Hallgríms Mar Steingrímssonar. Markið kom beint úr hornspyrnu sem hinn réttfætti Hallgrímur tók með vinstri fæti. Boltinn sveif yfir alla í teignum, þar með talinn markvörðinn Halldór Pál Geirsson, og hafnaði í fjærhorninu.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum og vel við hæfi að staðan í leikhléi var jöfn, 1-1.

Síðari hálfleikur var eign heimamanna að því leytinu til að þeir voru með boltann langstærstan hluta síðari hálfleiksins.

Það voru hins vegar Eyjamenn sem komust nær því að skora. Eftir klukkutíma leik bjargaði Aron Dagur Birnuson KA-mönnum á síðustu stundu eftir marktilraun Jonathan Glenn. Gary Martin og Víðir Þorvarðarson komu inn af bekknum hjá Eyjamönnum seint í síðari hálfleik og fengu báðir tækifæri til að gera út um leikinn á lokamínútum venjulegs leiktíma. Án árangurs og því var framlengt.

Framlengingin var keimlík síðari hálfleiknum. Heimamenn höfðu boltann að mestu leyti en Eyjamenn voru mun hættulegri í þau fáu skipti sem þeir höfðu boltann. Á 98.mínútu komust gestirnir yfir þegar Víðir afgreiddi boltann snyrtilega í netið eftir frábæra fyrirgjöf Felix Arnar Friðrikssonar.

KA-menn settu alla sína menn í sóknina þegar leið á framlenginguna en eina hættan sem skapaðist á vallarhelmingi ÍBV kom eftir föst leikatriði KA. KA tókst ekki að jafna metin og þvert á móti því Gary Martin nýtti skyndisókn á lokamínútu framlengingarinnar og gerði endanlega út um leikinn með frábærri afgreiðslu. Lokatölur 1-3.

Afhverju vann ÍBV?

Vandræðagangur KA á síðasta þriðjungi vallarins í bland við öflugan varnarleik gestanna. Eyjamenn leyfðu KA-mönnum að hafa boltann stærstan hluta leiksins og voru beinskeyttir þegar þeir unnu boltann.

Það reyndist klókt hjá Helga Sigurðssyni, þjálfara ÍBV, að taka þá áhættu að byrja með Gary Martin og Víði Þorvarðarson á varamannabekknum. Algjörir lykilmenn í liði ÍBV og það var sterkt fyrir Eyjamenn að fá þá ferska inn í jafnri stöðu seint í leiknum.

Bestu menn vallarins?

Sito var besti maður ÍBV þar til hann var tekinn af velli á 71.mínútu. Gary Martin og Víðir Þorvarðarson voru virkilega öflugir eftir að þeir komu inn á seint í leiknum; Gary fyrir Sito á 71.mínútu og Víðir á 82.mínútu. Fengu báðir tækifæri til að klára leikinn í venjulegum leiktíma og fóru svo alla leið með það í framlengingunni. Jón Ingason sömuleiðis öflugur í miðri vörn ÍBV.

KA ógnaði helst marki Eyjamanna úr föstum leikatriðum og þar var Hallgrímur Mar Steingrímsson í aðalhlutverki.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur KA. Heimamenn áttu virkilega auðvelt með að komast í hættulegar stöður en þær reyndust á endanum hættulausar því lítið gekk upp hjá KA á síðasta þriðjungi vallarins. 

Hvað er næst?

Ómögulegt að segja hvað verður um íslenska knattspyrnu á næstu dögum en ÍBV verður í það minnsta í hattinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Helgi: Við keyrðum hreinlega yfir þá

„Strákarnir unnu vel fyrir þessu. Við vorum betra liðið í dag; fengum miklu betri færi og ég er hrikalega ánægður með liðið. Hvernig þeir mættu í þennan leik og spiluðu 120 mínútur á fullu. Við keyrðum hreinlega yfir KA á köflum,“ sagði sigurreifur Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV, í leikslok.

„Þetta gekk algjörlega upp eins og við lögðum þetta upp. Þeir sem komu inná gerðu það sem þeir áttu að gera. Ég er mjög ánægður með hvernig leikáætlunin gekk upp. Allir unnu sem einn maður og þegar það gerist þá uppsker maður vanalega,“ sagði Helgi.

Á venjulegu ári væri í kringum 15-20 þúsund manns í Vestmannaeyjum um komandi helgi en Eyjamenn ætla að hafa gaman um helgina þó ekki verði hefðbundinn Þjóðhátið. Segir þjálfarinn að þessi úrslit hafi verið mikilvægur liður í því.

„Það er svekkjandi og mikið áfall fyrir okkur Eyjamenn. Við ætlum samt að hafa gaman um helgina og þetta var einn liður í því. Við höfum gaman saman og það verður hátíð í Eyjum þó hún verði öðruvísi, þetta var upphafið af því,“ sagði hæstánægður Helgi.

Arnar: Ekki ósanngjörn úrslit

„Ég held að heilt yfir hafi þetta ekki verið ósanngjarnt. Við vorum miklu meira með boltann en vorum ekki að skapa mikið. Þeir skora stórglæsilegt mark úr fyrstu sókninni sinni en við jöfnum fljótlega eftir það og mér fannst við vera aðeins betri í fyrri hálfleik,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA í leikslok.

„Í seinni hálfleik fannst mér liggja í loftinu að þeir væru að fara að skora þó þeir hafi ekki gert það í venjulegum leiktíma. Þeir voru líklegri þó við værum alltaf með boltann.“

Hvað útskýrir þessa vöntun á almennilegum marktækifærum hjá KA-liðinu sem hefur aðeins skorað tvö mörk í síðustu fjórum leikjum. Liðið hefur einnig skorað allra liða fæst í Pepsi-Max deildinni í sumar; sex mörk í 8 leikjum.

„Það vantar að flytja boltann hraðar og að menn finni meira hugmyndaflug. Við vorum að færa boltann á milli kanta en þegar kemur að þessu síðasta púsli þá vantar hugmyndaflug. Að menn séu að biðja um boltann á réttum stöðum og að menn taki réttar ákvarðanir á síðasta þriðjungi til að koma sér í góðar stöður,“ sagði Arnar áður en hann hrósaði liði ÍBV í hástert.

„Við komum okkur ekki í margar góðar stöður þó við værum allan tímann með boltann. ÍBV spilaði virkilega vel. Þeir voru rosalega viljugir og grimmir. Þeir hlupu mikið og gerðu okkur bara lífið leitt. Ég ætla ekkert að taka af þeim.“

Athygli vakti að Kristijan Jajalo var á varamannabekk KA eftir að hafa haldið marki sínu hreinu í þremur leikjum í röð þegar kom að leik kvöldsins. Hvað gat Arnar sagt um það?

„Ég er með rosalega færan markmannsþjálfara og ég hef tileinkað mér það þar sem ég hef unnið, bæði sem þjálfari og yfirmaður íþróttamála, þá hafa markmannsþjálfararnir fengið að ráða þessu. Auðvitað er það þjálfarinn sem tekur endanlega ákvörðun og ég skil það mjög vel að velja Aron. Hann er flottur markmaður og mér fannst hann standa sig vel. Það var ekkert við hann að sakast,“ sagði Arnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira