Íslenski boltinn

Telur knattspyrnulið áfram geta æft

Sindri Sverrisson skrifar
Skipulagðar æfingar lágu niðri um hríð í vor vegna kórónuveirufaraldursins.
Skipulagðar æfingar lágu niðri um hríð í vor vegna kórónuveirufaraldursins. VÍSIR/BÁRA

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, telur að æfingar knattspyrnuliða geti farið fram með sama hætti og undanfarnar vikur þrátt fyrir hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.

ÍSÍ bíður eftir endanlegri yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneytinu og Líney kveðst vonast til að geta sent út upplýsingar til íþróttahreyfingarinnar seinna í dag. Á blaðamannafundi heilbrigðisráðuneytisins í dag kom fram að tveggja metra reglan tæki aftur gildi, fjöldatakmörk yrðu lækkuð í 100 manns, og að mælst væri til þess að íþróttaviðburðum yrði frestað til 10. ágúst.

„Það kom nú ansi margt fram í fréttatilkynningunni eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun. Þar er lögð línan sem við þurfum nú að sjá hvernig hægt er að máta íþróttahreyfinguna inn í. Þetta eru ansi miklar takmarkanir,“ segir Líney við Vísi í dag.

„Það þarf í það minnsta að vera hægt að sótthreinsa áhöld á milli æfinga, og viðhalda tveggja metra reglunni eins og hægt er. Það er kannski erfitt í ákveðnum greinum, til að mynda í júdó og ýmsum öðrum íþróttum sem þarf að sjá hvort hægt sé að viðhalda keppni fyrir fullorðna í,“ segir Líney, en reglurnar gilda ekki um yngri iðkendur.

Á meðan að Líney bíður eftir frekari upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu kveðst hún þó gera ráð fyrir að æfingar geti að miklu leyti farið fram með sama hætti og síðustu vikur, að minnsta kosti í fótbolta.

„Ég myndi halda það, miðað við upplýsingarnar sem ég er með núna. Ef að við erum með hundrað manna takmarkanir þá ætti að vera hægt að vera með æfingu, og þegar svo næsti hópur kæmi á æfingu þyrfti að vera búið að sótthreinsa alla bolta og slíkt. Einnig þarf að sjá til þess að það sé ekki blöndun á milli hópa,“ segir Líney.

Eins og fyrr segir skýrist það þó vonandi betur í dag hvaða takmarkanir munu gilda um æfingar íþróttaliða.

Hertar aðgerðir taka gildi í hádeginu á morgun. Í kvöld stendur til að leika fótbolta, meðal annars í Mjólkurbikar karla.


Tengdar fréttir

Leikið í kvöld og KSÍ ræður ráðum sínum

Knattspyrnusamband Íslands fékk engan fyrirvara um þau tilmæli sem íþróttahreyfingunni er nú gert að fara eftir, þess efnis að kappleikjum fullorðinna skuli frestað um viku, og starfsfólk sambandsins ræður nú ráðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×