Erlent

Saka rússneska málaliða um að skipuleggja hryðjuverk

Kjartan Kjartansson skrifar
Lúkasjenkó forseti (við enda borðsins) fundar með þjóðaröryggisráði sínu.
Lúkasjenkó forseti (við enda borðsins) fundar með þjóðaröryggisráði sínu. AP/Nikolai Petrov/BeITA

Meintir rússneskir málaliðar sem voru handteknir í Hvíta-Rússlandi í gær er grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk í aðdraganda forsetakosninga í ágúst, að sögn stjórnvalda í Minsk. Þau hafa kallað rússneska sendiherrann á teppið til að skýra veru Rússanna í landinu.

Ríkisfjölmiðlar í Hvíta-Rússlandi halda því fram að 33 meintir málaliðar sem voru handteknir vinni fyrir Wagner, þekktasta málaliðafyrirtæki Rússlands. Stjórnvöld segjast hafa fengið upplýsingar um að fleiri en tvö hundruð málaliðar hafi komið inn í landið til að skapa usla fyrir kosningarnar 9. ágúst. Andrei Rakov, aðalritari þjóðaröryggiráðs Hvíta-Rússlands, segir öryggissveitir leita þeirra.

Spenna ríkir fyrir forsetakosningarnar en Alexander Lúkasjenkó forseti mætir nú mesta mótlæti sem hann hefur kynnst á langri valdatíð sinni. Gagnrýnendur hans telja hann hafa brugðist við kórónuveirufaraldrinum og efnahagsmálum af ábyrgðarleysi. Þá hefur ríkisstjórn Lúkasjenkó lengi verið sökuð um mannréttindabrot.

Lúkasjenkó hefur á móti sakað andstæðinga sína um að vera í slagtogi við erlenda aðila til að steypa sér af stóli. Hann lét fangelsa tvo helstu keppinauta sína fyrir kosningarnar. Búist er við að Lúkasjenkó nái endurkjöri til sjötta kjörtímabils síns. Hann hefur verið handgenginn stjórnvöldum í Kreml en undanfarið hefur hann mótmælt því að Rússar seilist til frekari efnahagslegri áhrifa.

Reuters-fréttastofan segir að rússnesk stjórnvöld hafi ekki tjáð sig um ásakanirnar. Þau hafa áður hafnað því að þau noti málaliða. Háttsettur embættismaður í Hvíta-Rússlandi segir Reuters aftur á móti að fjórtán af meintu málaliðunum hafi verið í Donbass-héraði í Austur-Úkraínu þar sem uppreisnarmenn studdir Rússum berjast gegn úkraínska stjórnarhernum.

Simon Ostrovsky, fréttamaður PBS-sjónvarpsstöðvarinnar í Bandaríkjunum, bendir á að rússneskur rithöfundur sem barðist með uppreisnarmönnum í Úkraínu, haldi því fram að nokkrir þeirra sem voru handteknir í Hvíta-Rússlandi hafi verið með honum í herdeild í Úkraínu. Hann telji þó að mennirnir hafi aðeins verið á leiðinni í gegnum Hvíta-Rússland annað.

Í fórum mannanna fannst súdönsk mynt og símakort. Vangaveltur hafa verið um að málaliðarnir hafi verið á leiðinni til Afríku í gegnum Hvíta-Rússland. Alexander Alesin, sjálfstæður hermálasérfræðingur í Minsk, segir AP-fréttastofunni að Hvíta-Rússland hafi lengi verið viðkomuland fyrir rússneska útsendara á leið í aðgerðir erlendis.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×