Íslenski boltinn

Sólveig tvístígandi varðandi Flórídaför: „Leiðinlegt að þetta sé svona akkúrat þegar maður ætlaði út“

Sindri Sverrisson skrifar
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen með augun á boltanum í leik gegn Selfossi i sumar.
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen með augun á boltanum í leik gegn Selfossi i sumar. vísir/daníel

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen hefur stefnt að því í mörg ár að komast í bandaríska háskólafótboltann. Markmiðið átti að verða að veruleika í næsta mánuði en nú ríkir óvissan ein vegna kórónuveirufaraldursins.

Sólveig hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu með Fylki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar, þar sem hún hefur leikið sem lánsmaður frá Breiðabliki. 

Hún var fyrr í þessum mánuði kynnt sem nýr leikmaður University of South Florida, þar sem hún hugðist hefja nám í umhverfisvísindum í ágúst, en Sólveig er enn á Íslandi og bíður fregna af stöðunni í Flórída.

„Það kemur vonandi í ljós í þessari viku hvort að deildin sem liðið spilar í verður spiluð í haust. Þá tek ég ákvörðun um hvort ég verð á Íslandi fram í janúar eða fer út í ágúst,“ segir Sólveig við Vísi.

„En jafnvel þó að það verði deild þarna þá gæti verið að ég verði hérna á Íslandi fram í janúar, í fjarnámi. Ég ætla að sjá til,“ segir Sólveig, sem er 19 ára gömul og á að baki 32 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Frjáls hérna heima og slæmt að fara út verði keppni frestað

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, leikmaður Breiðabliks, útskrifaðist frá USF í sumar og kom svo heim til Íslands, en reyndist hafa smitast af kórónuveirunni í Flórída. Þúsundir manna greinast með kórónuveirusmit á hverjum degi í fylkinu og Sólveig er hikandi við að fara út, jafnvel þó að svo færi að keppni yrði ekki aflýst.

„Já, eiginlega. Maður er svo frjáls hérna heima. Deildin er í fullum gangi hérna heima og það hefur gengið ágætlega, svo það væri kannski lélegt að fara út og lenda í því að deildinni þar yrði frestað enn meira.

Maður er búinn að stefna á þetta frá því að maður var lítill, en svona er bara þetta COVID. Staðan úti er kannski svipuð og hún var í mars hérna heima. Það er auðvitað leiðinlegt að þetta sé svona akkúrat þegar maður ætlaði út, en það er ekkert við því að gera.“

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen á láni til Fylkis Sólveig, sem er fædd árið 2000, hefur verið lánuð til Fylkis þar sem...

Posted by Knattspyrnudeild Breiðabliks on Föstudagur, 29. maí 2020

Búið er að aflýsa keppni í haust í að minnsta kosti þremur af um þrjátíu riðlum í efstu deild bandaríska háskólafótboltans, en ekki riðli USF. Liðið hefur oft unnið sinn riðil og fór í 16-liða úrslit í úrslitakeppninni á landsvísu síðasta vetur, en féll þar úr leik.

„Þetta er mjög gott lið. Andrea Rán var að útskrifast þaðan núna í sumar. Ég talaði við hana til þess að fá smá innsýn í það hvernig skólinn væri og umgjörðin í kringum hann. Hún gaf mjög góð meðmæli og ég treysti henni vel fyrir því,“ segir Sólveig.

Fylkiskonur urðu Reykjavíkurmeistarar í vetur og eru í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar, taplausar með 12 stig eftir sex leiki.VÍSIR/DANÍEL

Gæti ekki verið ánægðari í Árbænum

Eftir að hafa skorað mark 6. umferðar með afar laglegum hætti, í 1-1 jafntefli við Íslandsmeistara Vals 15. júlí, varð Sólveig fyrir því óláni að togna aftan í læri.  Fram að því hafði henni gengið afar vel með Fylki og hún er ánægð með þá ákvörðun að hafa farið að láni í Árbæinn:

„Ég gæti ekki verið ánægðari. Það er leiðinlegt að hafa meiðst núna og misst af síðustu tveimur leikjum. Ég verð ekki með gegn Breiðabliki [í dag], þar sem ég má ekki spila gegn þeim, en stefni á að ná næsta leik eftir það, gegn FH,“ segir Sólveig, ánægð með tímabilið sitt til þessa eftir að hafa verið í aukahlutverki hjá Breiðabliki:

„Ég er búin að spila svo fáa leiki síðustu ár þannig að maður sér ekki beinlínis bætingu, en það er bara geggjað að vera loksins farin að spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×