Íslenski boltinn

Viktor óbrotinn en missir af leikjum - Með fimm mörk í júlí

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Jónsson í leik gegn FH í sumar. Hann skoraði fimm mörk í júlí, næstflest allra í deildinni.
Viktor Jónsson í leik gegn FH í sumar. Hann skoraði fimm mörk í júlí, næstflest allra í deildinni. vísir/hag

Viktor Jónsson meiddist í ökkla um leið og hann skoraði fyrir ÍA gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni á sunnudag. Hann er óbrotinn en kemur til með að missa af nokkrum leikjum.

Þetta staðfesti Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við Vísi í dag. Viktor skoraði þriðja mark ÍA, í 5-3 tapi, á 54. mínútu en varð svo að fara meiddur af velli. Atvikið má sjá hér að neðan.

Klippa: Viktor meiddist þegar hann skoraði

Þetta er mikið áfall fyrir Viktor og Skagaliðið en Viktor skoraði fimm mörk í júlímánuði, í sex deildarleikjum. Aðeins Thomas Mikkelsen hjá Breiðabliki hefur skorað fleiri mörk í mánuðinum, eða sjö.

„Viktor fór í röngtenmyndatöku í gær og er alla vega ekki brotinn. Það er alla vega jákvætt. En hann þarf að fara í segulómun svo við vitum ekki meira á þessari stundu,“ sagði Jóhannes Karl. Segulómun ætti að leiða í ljós hvort og þá hversu alvarlega liðbönd í ökklanum hafa skaddast.

„Hann mun missa af einhverjum leikjum, ég held að það sé nokkuð ljóst, en ég veit ekki hversu mikið eða lítið þetta er,“ sagði Jóhannes Karl.


Tengdar fréttir

Sjáðu markasúpuna í Kópavoginum

Átta mörk voru skoruð þegar Breiðablik tók á móti ÍA í Pepsi Max-deild karla í gær. Blikar skoruðu fimm markanna og lyftu sér upp í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×