Enski boltinn

Sat á vellinum og grét eftir síðasta leikinn - Treyjunúmer táningsins frátekið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jude Bellingham situr og grætur.
Jude Bellingham situr og grætur. vísir/getty

Jude Bellingham er á leið til Dortmund en þessi sautján ára piltur gengur í raðir þýska stórliðsins í sumar frá uppeldisfélaginu Birmingham.

Bellingham mun því hlaupa um á Westfalen-leikvanginum á næstu leiktíð en hann hefur leikið allan sinn feril hingað til með Birmingham.

Bellingham lék sinn síðasta leik fyrir Birmingham, í bili að minnsta kosti, í gær er liðið tapaði 3-1 fyrir Derby í síðustu umferð ensku B-deildarinnar.

Hann lék í 75 mínútur í leiknum áður en hann var tekinn af velli. Birmingham endaði í 20. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá falli.

Eftir leikinn birti Amazon fréttaveitan myndir af Bellingham þar sem hann sat á vellinum og grét. Tilfinningaþrunginn stund fyrir hinn unga Bellingham.

Birmingham hefur nú ákveðið að taka frá treyjunúmer táningsins, númer 22, þannig að ekki verður í boði fyrir leikmenn félagsins að bera það númer um ókomna tíð. Það þótti við hæfi þar sem að um væri að ræða yngsta leikmann og markaskorara í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×