Íslenski boltinn

Fór beint í vinnuna eftir að hafa varið fjórða vítið í síðustu þremur leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dino Hodzic er mikill vítabani.
Dino Hodzic er mikill vítabani. mynd/skagafrettir.is

Dino Hodzic, markvörður Kára á Akranesi, er mikill vítabani eins og komið hefur í ljós í síðustu leikjum liðsins í 2. deildinni.

Hodzic sá til þess að Kári vann Dalvík/Reyni, 1-0, í gær með því að verja vítaspyrnu í uppbótartíma.

Þetta var fjórða vítið sem ver í síðustu þremur deildarleikjum Kára sem allir hafa unnist. Hann varði tvær vítaspyrnur í 1-0 sigri á ÍR í 5. umferð 2. deildarinnar og svo eitt víti þegar Kári sigraði Víði, 5-0, í 6. umferðinni.

ÍATV birti myndband af vítavörslum Hodzic í síðustu leikjum á Twitter og það má sjá hér fyrir neðan.

Hodzic virtist þó hinn rólegasti yfir öllum vítavörslunum því eftir leikinn í Akraneshöllinni í gær fór hann strax í vinnuna. 

Það var ekki langt að fara en Hodzic starfar á Norðurálsvellinum. Hann fór beint í að vökva völlinn og gera hann tilbúinn fyrir leik ÍA og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla í kvöld.

Hodzic kom til ÍA frá ungverska liðinu Mezokövesd um mitt síðasta sumar og var varamarkvörður liðsins seinni hluta tímabilsins.

Í byrjun júní á þessu ári gekk króatíski markvörðurinn í raðir Kára og hefur leikið alla sjö leiki liðsins í 2. deildinni í sumar.

Hinn 24 ára Hodzic er engin smásmíði en hann telur 2,05 metra. Áður en hann fór til Ungverjalands lék hann með Vejle og Fredericia í Danmörku.

Kári er í 7. sæti 2. deildar með ellefu stig eftir sjö umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×