Fótbolti

Serena Williams fetar í fótspor David Beckham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serena Williams gæti fetað í fótspor David Beckham þegar kemur að því að vera stofnandi knattspyrnuliðs í Bandaríkjunum.
Serena Williams gæti fetað í fótspor David Beckham þegar kemur að því að vera stofnandi knattspyrnuliðs í Bandaríkjunum. Getty/Tim Clayton

Tennisdrottningin Serena Williams mun feta í fótspor David Beckham á næstu misserum. Hún er ein þeirra frægru kvenna sem standa á bakvið nýtt knattspyrnulið NWSL-deildarinnar í Bandaríkjunum.

Beckham er í dag einn fjögurra eiganda bandaríska knattspyrnuliðsins Inter Miami sem leikur í MLS-deildinni. Það má því með sanni segja að Serena Williams sé að feta í fótspor David Beckhams, allavega að einhverju leyti.

Ásamt Serenu er fjöldinn allur af fyrrum landsliðskonu Bandaríkjanna í fótbolta og Hollywood-leikkonum á bakvið liðið. Þær Mia Hamm og Abby Wambach eru eflaust stærstu nöfnin af fyrrum landsliðskonum í fótbolta sem taka þátt. Þá eru Natalie Portman, Jennifer Garnar, Jessica Chastain og Eva Longoria allar þekktar fyrir leik sinn á hvíta tjaldinu.

Liðið verður staðsett í Los Angeles og stefnt er að því að það muni koma inn í deildina árið 2022.

„Íþróttir eru góð leið til að fá fólk til að standa saman og þetta gæti haft jákvæð áhrif á íþróttakonur í samfélaginu okkar,“ sagði Natalie Portman um stofnun liðsins.

Portman var einnig í ítarlegu viðtali á íþróttamiðlinum The Athletic þar sem hún svaraði hinum ýmsu spurningum varðandi liðið.

Nafn liðsins hefur ekki enn verið opinberað en hópurinn sem stendur á bakvið liðið kallar sig „Angel City“ eða Borg Englanna. Eflaust tilvísun í Los Angeles sem gengur einnig undir því nafni. Þá er enn óvíst hvar liðið mun spila.

Sem stendur er ekkert kvennalið staðsett í Kaliforníu-fylki og því ætti þetta að reynast mikil lyftistöng fyrir kvennaknattspyrnu í fylkinu sem og Bandaríkjunum í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×