Enski boltinn

Guardiola segir Bielsa tróna á toppi listans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bielsa og Pep á hliðarlínunni þegar þeir þjálfuðu á Spáni.
Bielsa og Pep á hliðarlínunni þegar þeir þjálfuðu á Spáni. Vísir/Manchester Evening News

Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa er eflaust kominn í guðatölu hjá stuðningsfólki Leeds United eftir að hafa stýrt liðinu upp í ensku úrvalsdeildinni eftir 16 ára fjarveru. 

Pep Guardiola – þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester City – segir Bielsa hafa unnið stórbrotið verk með lið Leeds. Sá spænski telur Bielsa vera einn besta þjálfara samtímans.

Sjá einnig: Segir Guardiola B-hliðina af Bielsa

„Hann er einstakur í knattspyrnuheiminum sökum þess hvernig hann vill spila leikinn. Ég lærði mikið af honum og hann er einstök manneskja. Enskur fótbolti mun njóta góðs af að fá Bielsa í ensku úrvalsdeildina á næstu leiktíð,“ sagði Pep í viðtali við BBC.

Bielsa hefur farið um víðan völl á þjálfunarferli sínum. Hann hefur þjálfað lið á borð við Athletic Bilbao, Marseille, Lazio og Lille. Þá hefur hann þjálfað landslið Argentínu og Síle. Bielsa tók síðan við Leeds sumarið 2018 og var nálægt því að koma liðinu upp á sínu fyrsta tímabili.

Það gekk ekki eftir en tókst nú í ár og verður Leeds því í ensku úrvalsdeildinni þegar deildin fer aftur af stað í haust.

„Að vinna bikara hjálpar þér að halda starfinu en á endanum þá eru það minningarnar sem lifa með þér og hversu mikið hver þjálfari kenndi þér á sínum tíma. Það sem við munum eftir er lífsreynslan, leikmennirnir sem þú þjálfaðir og þjálfararnir sem þú varst með. Þar trónir Marcelo á toppnum,“ sagði Pep einnig í viðtalinu.

Eftir háværa orðróma um að Pep myndi yfirgefa City-skútuna í sumar þá stefnir í að verði áfram í Manchester-borg. Hann mun því mæta lærifaðir sínum á næstu leiktíð þegar Leeds og Man City mætast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×