Fótbolti

Segir Guardiola B-hliðina af Bielsa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr þætti gærkvöldsins.
Úr þætti gærkvöldsins. vísir/s2s

Þorkell Máni Pétursson, fjölmiðlamaður og mikill stuðningsmaður Leeds, sagði í Sportinu í kvöld að Pep Guardiola væri einfaldlega bara B-hliðin af stjóra Leeds, hinum áhugaverða Marcelo Bielsa.

Meðal umræðuefna í þætti gærkvöldsins var lið Víkinga og var hugmyndafræði Arnars Gunnlaugssonar meðal annars líkt við Pep Guardiola. Þá tók Máni við boltanum.

„Bara svo að það komist til skila þá er Pep Guardiola bara einhver B-hlið af Bielsa. Bara svo að það sé öllum ljóst. Hugmyndafræði fótbolta er nútímafótbolti og Arnar Gunnlaugsson er með algjöra hugmyndafræðina á hreinu; hvernig fótbolta hann ætlar að spila,“ sagði Máni og hélt áfram:

„Allir sem hann velur inn í liðið sitt eru engir sleðar. Þetta eru hraðir strákar. Þeir eru teknískir og hann virðist alveg vita hvað hann er að gera plús það að þeir eru frábærir fótboltamenn.“

„Gaurarnir í liðinu eru allir á því að þeir séu of góðir til þess að spila í Pepsi Max-deildinni og þess vegna verður það þannig að þeir verða mjög gíraðir í að vinna einhvern titil, alveg eins og þeir voru með þennan bikartitil. Ég var viss um það að Víkingur myndi vinna þann leik því þeir eru hungraðir að ná árangri. Ég held að þeir eigi eftir að eiga gott mót.“

Markahrókurinn Atli Viðar Björnsson var einnig gestur þáttarins og hann setti spurningarmerki við þann hugsunarhátt að leikmennirnir héldu að þeir væru of góðir fyrir deildina og hvort að það myndi raunverulega skila þeim í toppbaráttuna.

„Gæti það ekki orðið þeim að falli líka ef að meirihlutinn leikmanna finnst þeir of góðir til þess að vera hérna?“ en alla umræðuna um Víkinga má heyra og sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í kvöld - Umræða um Víking

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.