Fyrirliðinn Gylfi Þór lagði upp sigurmark Everton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór lagði upp eina mark leiksins.
Gylfi Þór lagði upp eina mark leiksins. Tony McArdle/Getty Images

Everton gerði svo gott sem út um Evrópudrauma Sheffield United með því að vinna 1-0 sigur á Bramall Lane, heimavelli Sheffield, nú rétt í þessu. Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp eina mark leiksins.

Gylfi Þór Sigurðsson hóf leikinn á vinstri vængnum í 4-4-2 leikkerfi Carlo Ancelotti. Þeir Tom Davies og André Gomes voru sem fyrr á miðri miðjunni. Gylfi Þór bar hins vegar fyrirliðabandið í fjarveru Seamus Coleman. 

Leikurinn í dag var stál í stál - enda leikinn í Stálborginni sjálfri - og var fyrri hálfleikurinn markalaus. Það tók Everton hins vegar aðeins eina mínútu í síðari hálfleik til að komast yfir. Gestirnir fengu aukaspyrnu út á velli sem Gylfi Þór tók.

Sendingin var góð en skallinn frá Richarlison var frábær og söng í netinu þó svo að Dean Henderson í marki heimamanna hafi náð að klóra í boltann með fingurgómunum. Staðan orðin 0-1 og þannig var hún allt til loka leiks.

Heimamenn gerðu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 1-0 Everton í vil. 

Gylfi var tekinn af velli fyrir Seamus Coleman á 87. mínútu leiksins. 

Með sigrinum komst Everton upp fyrir Southampton í töflunni á markatölu en bæði lið eru með 49 stig í 11. og 12. sæti deildarinnar. Sheffield United eru með 58 stig í 8. sæti og geta því ekki náð Tottenham Hotspur sem situr í 6. sætinu en það er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

Einn annar leikur fór fram á sama tíma en Brighton & Hove Albion og Newcastle United gerðu markalaust jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira