Erlent

Þolinmæði Macron og Merkel að þrjóta

Andri Eysteinsson skrifar
Forsetinn og kanslarinn eru í aðalhlutverki í viðræðum ESB í Brussel.
Forsetinn og kanslarinn eru í aðalhlutverki í viðræðum ESB í Brussel. Getty/Anadolu

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir mögulegt að ekki náist samkomulag um gríðarstóran björgunarpakka Evrópusambandsríkjanna vegna efnahagsáfalls í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar.

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa undanfarið fundað í Brussel og eru það fyrstu fundir leiðtoganna frá því í febrúar. Öll 27 ríki ESB hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna faraldursins þar sem atvinnulíf hefur verið að mestu lamað undanfarna mánuði.

Afstaða til björgunarpakkans virðist nú skiptast eftir höfuðáttunum og segja Angela Merkel og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem kynntu aðgerðir sem hljóða upp á 750 milljarða evra sem sé sambland lána og styrkja til ríkja Evrópu, að þolinmæði þeirra gæti verið á þrotum.

„Við erum á þriðja degi viðræðna og þetta er klárlega sá mikilvægasti. Á þessum tímapunkti höfum við unnið okkur í gegn um marga hluta pakkans. Stærð hans, hvernig honum er stýrt og lagareglur í kringum hann. Ég veit ekki hvort við náum að finna lausn,“ hefur Guardian eftir Merkel.

„Hér er ríkur samningsvilji og þess vegna mun ég berjast fyrir því að við náum saman. Það er þó mögulegt að ekki verði samið hér í dag,“ sagði Merkel.

„Ég hef enn trú á þessu en þessar málamiðlanir. Þær verða ekki samþykktar ef það kemur niður á metnaði Evrópusambandsins,“ sagði Macron Frakklandsforseti.

Leiðtogunum greinir enn á um stærð björgunarpakkans og samblöndun styrkja og lána.

Forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, sakaði leiðtoga Hollands, Austurríkis, Danmerkur og Svíþjóðar um að vera nískupúka en ríkin börðust fyrir því að minnka björgunarpakkann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×