Innlent

Uppsagnir verða dregnar til baka

Vésteinn Örn Pétursson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Öllum flugfreyjum hjá Icelandair var sagt upp á föstudaginn. Þær uppsagnir verða að óbreyttu dregnar til baka.
Öllum flugfreyjum hjá Icelandair var sagt upp á föstudaginn. Þær uppsagnir verða að óbreyttu dregnar til baka.

Uppsagnir sem Icelandair tilkynnti um á föstudaginn, og náðu til allra flugfreyja og flugliða sem starfa hjá félaginu, verða dregnar til baka eftir að nýr kjarasamningur var undirritaður í nótt. Flugmenn munu þar af leiðandi ekki gegna störfum öryggisliða, sem flugfreyjur gegna alla jafna, líkt og til stóð. 

Formaður Flugfreyjufélags Íslands segist ganga sátt frá borði. Forstjóri Icelandair kveðst vongóður um að samningurinn verði samþykktur.

„Við göngum frá borði mjög sátt. Þetta eru búnir að vera mjög erfiðir dagar og þessu lýkur með undirritun. Nú hefst bara kynning fyrir okkar félagsmönnum sem munu fá að kjósa um nýjan kjarasamning,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, í samtali við fréttastofu.

Stefnt er að því að samningurinn verði kynntur strax á mánudaginn og atkvæðagreiðsla um samninginn mun standa yfir til 26. júlí.

Er samningurinn að miklu leyti frábrugðinn þeim samningi sem hafði verið undirritaður áður og var felldur?

„Hann byggir á þeim samningi þó með nokkrum breytingum sem við munum kynna félagsmönnum,“ svarar Guðlaug.

Icelandair sagði á föstudaginn upp öllum flugfreyjum og flugliðum sem starfa hjá Icelandair en verða þær uppsagnir dregnar til baka. „Þær uppsagnir sem tilkynntar voru í gær, og voru fyrirhugaðar, verða dregnar til baka og við horfum bara björtum augum á það að ennþá fleiri uppsagnir verða dregnar til baka á næstu vikum,“ segir Guðlaug.

Samningurinn sem undirritaður var í kvöld gildir fram í september 2025.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×