Erlent

Kafteinn Tom Moore hlaut riddaratign

Andri Eysteinsson skrifar
Drottningin notaði sverð föðurs síns við athöfnina.
Drottningin notaði sverð föðurs síns við athöfnina. Getty/Max Mumby

Kafteinn Tom Moore hefur verið sæmdur riddaratign af Elísabetu Englandsdrottningu fyrir framlag sitt til bresku heilsugæslunnar NHS.

Moore sem er hundrað ára gamall safnaði meira en 32 milljónum punda fyrir heilsugæsluna. Kafteinninn safnaði áheitum fyrir það að ganga í garðinum heima hjá sér í Marston Moretaine.

Sir Tom sagði í viðtali við BBC að dagurinn hafi verið alveg frábær. „Þetta er svo mikill heiður og að hljóta hann frá drottningunni, það er ekki hægt að óska neins meira. Þetta hefur verið hreint út sagt frábær dagur,“ sagði Sir Moore.

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, útnefndi Moore til riddaratignar í maí og gerði það honum kleift að hljóta viðurkenninguna. Um er að ræða fyrsta embættisverk drottningarinnar frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst en aðrar aðlanir og verðlaunaafhendingar hafa verið settar á ís.

Sir Tom Moore ætlaði upphaflega að safna þúsund pundum fyrir heilsugæsluna með því að ganga 25 metra langan hring í garðinum. Hann óraði ekki fyrir stuðningnum sem hann átti eftir að fá því meira en ein og hálf milljón manns lagði til fé í söfnunina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.