Enski boltinn

Hvað gerðist eiginlega í leik Wigan og Hull?

Ísak Hallmundarson skrifar
Ótrúleg úrslit.
Ótrúleg úrslit. getty/Martin Rickett

Ein ótrúlegustu úrslit í sögu fótbolta á Englandi áttu sér stað í Championship-deildinni í gær, sem er næstefsta deildin á Englandi. Wigan sigraði þá Hull 8-0, þar sem staðan í hálfleik var 7-0.

Wigan, sem er við það að verða gjaldþrota, skoraði sjö mörk í hálfleik gegn arfaslöku liði Hull. Kal Naismith skoraði fyrsta mark leiksins á 2. mínútu, en annað mark Wigan kom ekki fyrr en á 27. mínútu og skoraði liðið sex mörk á síðustu 20 mínútunum í fyrri hálfleik.

Eftir að Kiefer Moore skoraði á 27. mínútu bættu Jamal Lowe, Joseph Williams og Kieran McDowell við einu marki hver, auk þess sem Moore bætti við sínu öðru marki í leiknum. Á 65. mínútu bætti McDowell við öðru marki sínu í leiknum og áttunda marki Wigan og var það síðasta mark leiksins.

Wigan jafnaði þar með stærsta sigurinn í deildinni frá því hún fékk nafnið Championship árið 2004, en árið 2014 vann Bournemouth 8-0 útisigur á Birmingham. Þetta var einnig í fyrsta skipti sem lið skorar átta mörk á heimavelli í næstefstu deild síðan árið 1987, þegar Manchester City vann Huddersfield 10-1. Þetta var jafnframt versta tap Hull síðan árið 1911 og stærsti sigur Wigan frá upphafi.

Grant McCann, þjálfari Hull, biðst afsökunar á leiknum. 

„Þetta særir okkur. Það eina sem ég get gert er að biðja stuðningsmenn afsökunar fyrir hönd allra í búningsklefanum, því þetta var óásættanlegt og ég er miður mín vegna þess.

Við fengum á okkur mark í hvert einasta skipti sem Wigan sótti fram. Við stóðum á hliðarlínunni og hugsuðum að þetta yrði aldrei búið. Við mættum einfaldlega ekki til leiks, þetta var niðurlægjandi,“ sagði McCann.

Hull situr í fallsæti og hefur aðeins unnið einn leik af síðustu 18 leikjum og tapað 14 af þeim. 

Fyrir leikinn hafði Wigan skorað næstfæst mörk í deildinni, en þessi stóri sigur gerir það að verkum að liðið er komið í jákvæða markatölu í fyrsta sinn á tímabilinu. Wigan er tólf stigum fyrir ofan fallsæti en liðið á einmitt yfir höfði sér að það verði dregin tólf stig af því, vegna yfirvofandi gjaldþrots. Markatalan gæti því spilað stórt hlutverk í að halda liðinu uppi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.