Íslenski boltinn

Fyrsti Guðjohnsen sem opnar ekki markareikninginn á móti ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Borg Guðjohnsen, til hægri,  lék í gær sinn fimmta leik í Pepsi Max deildinni á ferlinum og skoraði sitt fyrsta mark.
Arnór Borg Guðjohnsen, til hægri,  lék í gær sinn fimmta leik í Pepsi Max deildinni á ferlinum og skoraði sitt fyrsta mark. Vísir/Vilhelm

Arnór Borg Guðjohnsen tryggði Fylki 2-1 sigur á FH í Kaplakrika í gærkvöldi eftir að hafa skorað sigurmarkið fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Faðir hans, Arnór Guðjohnsen, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir Víking árið 1978, bróðir hans Eiður Smári Guðjohnsen, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Val 1994 og frændi hans, Sveinn Aron Guðjohnsen, skoraði sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni fyrir val árið 2017.

Sveinn Aron opnaði líka markareikning sinn í efstu deild með því að skora sigurmark skömmu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Sveinn Aron kom inn á völlinn á 72. mínútu í stöðunni 1-1 á móti ÍBV og skoraði sigurmarkið aðeins mínútu síðar.

Arnór Borg Guðjohnsen er aftur á móti sá eini af þeim fjórum sem skoraði fyrsta markið sitt ekki á móti Eyjamönnum.

Feðgarnir Arnór og Eiður Smári skoruðu fyrsta markið sitt á móti ÍBV úti í Eyjum en Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði sitt fyrsta mark á móti ÍBV á Hlíðarenda.

Allir fjórir náðu þeir að skora sitt fyrsta mark fyrir tvítugsafmælið en Eiður Smári Guðjohnsen er sá yngsti sem hefur skorað í efstu deild á Íslandi.

Fyrstu mörk manna úr Guðjohnsen ættinni í efstu deild á Íslandi:

16. maí 1978 á Hásteinsvelli Arnór Guðjohnsen fyrir Víking R. á móti ÍBV [2-0 sigur, seinna mark]

(Var 16 ára og 287 daga gamall)

26. maí 1994 á Hásteinsvelli Eiður Smári Guðjohnsen fyrir Val á móti ÍBV [1-1 jafntefli, jöfnunarmark]

(Var 15 ára og 253 daga gamall)

4. júní 2017 á Hlíðarenda Sveinn Aron Guðjohnsen fyrir Val á móti ÍBV [2-1 sigur, sigurmark]

(Var 19 ára og 23 daga gamall)

13. júlí 2020 í Kaplakrika Arnór Borg Guðjohnsen fyrir Fylki á móti FH [2-1 sigur, sigurmark]

(Var 19 ára og 301 dags gamall)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.