Íslenski boltinn

Kristinn Jóns skoraði fyrir Blika síðast þegar þeir unnu í Frostaskjólinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristinn Jónsson og Andri Rafn Yeoman í leik KR og Breiðabliks í fyrra. Þeir léku með Blikum síðast þegar þeir unnu í Frostaskjólinu.
Kristinn Jónsson og Andri Rafn Yeoman í leik KR og Breiðabliks í fyrra. Þeir léku með Blikum síðast þegar þeir unnu í Frostaskjólinu. vísir/bára

Breiðablik freistar þess í kvöld að vinna KR í Vesturbænum í fyrsta sinn síðan 2012. Blikar sækja KR-inga heim í stórleik 6. umferðar Pepsi Max-deildar karla klukkan 19:15. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Síðan Breiðablik vann KR með fjórum mörkum gegn engu 16. september 2012 hefur liðið ekki sótt sigur í Frostaskjólið.

Næstu sex deildarleikir KR og Breiðabliks í Vesturbænum, á árunum 2013-18, enduðu með jafntefli. KR-ingar unnu svo Blika á heimavelli í fyrra, 2-0, með mörkum Kristins Jónssonar og Óskars Arnar Haukssonar.

Kristinn skoraði einnig í áðurnefndum leik KR og Breiðabliks 2012. Þá lék hann með Blikum og var fyrirliði þeirra gegn KR.

Bakvörðurinn kom Breiðabliki yfir á 34. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu. Áður hafði Ingvar Þór Kale varið vítaspyrnu Garys Martin.

Í seinni hálfleik bættu Blikar svo þremur mörkum við. Nichlas Rohde, Elfar Árni Aðalsteinsson og Tómas Óli Garðarsson skoruðu þau.

Aðeins einn í átján manna leikmannahópi Breiðabliks í leiknum gegn KR 2012 er enn hjá félaginu. Það er Andri Rafn Yeoman, leikjahæsti leikmaður Blika frá upphafi. 

Aron Bjarki Jósepsson og Atli Sigurjónsson eru einu KR-ingarnir sem tóku þátt í leiknum 2012. Þá er KR með sama þjálfara, Rúnar Kristinsson. Bjarni Guðjónsson, sem var fyrirliði KR 2012, er aðstoðarþjálfari liðsins í dag.

Mörkin úr leik KR og Breiðabliks 2012 má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: KR - Breiðablik 2012

Breiðablik er á toppi Pepsi Max-deildarinnar með ellefu stig. KR er í 5. sætinu með níu stig. Með sigri í kvöld komast KR-ingar því upp fyrir Blika. KR hefur leikið einum leik færra en Breiðablik.

Eins og fyrr sagði verður leikur KR og Breiðabliks í kvöld sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 19:00. Eftir leikinn fara Kjartan Atli Kjartansson og Atli Viðar Björnsson svo yfir 6. umferð Pepsi Max-deildar karla í Pepsi Max tilþrifunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.