Um­fjöllun og við­töl: KR - Breiða­blik 3-1 | Meistararnir sýndu klærnar

Árni Jóhannsson skrifar
KR-ingar fagna í kvöld.
KR-ingar fagna í kvöld. vísir/bára

Spennan fyrir leik KR og Breiðabliks í sjöttu umferð Pepsi Max deild karla var áþreifanleg þegar flautað var til leiks í kvöld. Bæði lið í toppbaráttu og til alls að vinna. Það má segja að KR-ingar hafi nýtt spennuna betur en þeir voru komnir yfir eftir tvær mínútur og með tvö mörk í forskot eftir níu mínútur. Blikar virkuðu eins og frosnir og komu engum vörnum við nánast.

Stefán Árni Geirsson, sem spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir KR, gaf tóninn eftir 90 sekúndur þegar hann geystist af miðjunni í átt að vítateignum þar sem hann fékk nóg pláss til að snúa sér yfir á vinstri löppina og skjóta. Boltinn sveif í fjærhornið og KR komið yfir. Margir áhorfenda örugglega ekki komnir í sætin sín.

Pablo Punyed tvöfaldaði forskotið sjö mínútum seinna þegar hann fékk fyrirgjöf frá hægri, dúndraði knettinum í jörðina sem sveif í fallegum boga yfir Anton Ara í markinu.

Læti í leiknum í kvöld.vísir/bára

Blikar rönkuðu ekki við sér fyrr en eftir um hálftíma leik og uppskáru mark á 33. mín. þegar Höskuldur Gunnlaugsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf úr aukaspyrnu. Þar við sat í fyrri hálfleik en KR höfðu veriið mikið betri og klárari í slaginn sem fór fram.

Blikar voru betri í seinni hálfleik en þó ekki mikið betri. Þeir fengu þó færin til að jafna og í tvígang fór boltinn í innanvert tréverkið þannig að kannski átti þetta ekki að gerast fyrir Blikana. KR sýndu að þeir geta ógnað úr hraðaupphlaupum en á 82. mínútu kláraði Pablo Punyed leikinn. Hann tók við boltanum fyrir utan teiginn og fékk nægan tíma til að koma honum fyrir sig og negla honum í hornið út við stöng.

3-1 niðurstaðan og hún var sanngjörn.

KR-ingar fagna marki Stefáns Árna.vísir/bára

Afhverju vann KR?

Þeir mættu mikið ferskari og klárari í slaginn og voru einfaldlega beittari í sínum aðgerðum í kvöld. Blikarnir virkuðu, eins og þjálfari þeirra orðaði, þreyttir, þungir, orkulausir og kannski eilítið stressaðir í byrjun leiks. KR gekk á lagið, skoraði tvö mörk og sigldu síðan sigrinum í höfn verðskuldað.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er auðvelt að benda á markaskorara KR sem þá sem stóðu upp úr en þeir voru mjög góðir allan þann tíma sem þeir spiluðu og voru einnig örlagavaldarnir. Vörn KR var síðan þétt og miðjan skilaði mjög góðu verki í dag.

Blikar voru allir pínu heillum horfnir en Oliver Sigurjónsson þeirra skástu í kvöld að mati blaðamanns.

Hvað gekk illa?

Eins og áður segir voru Blikar ekki líkir sjálfum sér og héldum boltanum hrikalega illa innan liðsins síns. Sendingar voru út um allt og skrýtnar ákvarðanir teknar sem voru þeim ekki til góða. Þá átti Davíð Ingvarsson í miklum erfiðleikum í vinstri bakverðinum en KR hafði lesið það og herjuðu á hann ítrekað. Hann skánaði í seinni hálfleik en þarf að skoða hvernig hann getur gert betur gegn liðum eins og KR. Þá var það eftirtektarvert hversu lítið Thomas Mikkelsen sást en hann fékk enga þjónustu í fyrri hálfleik og litla í seinni. Átti þó tvö skot í slá og stöng og hans hefði verið munað með öðrum hætti í kvöld ef þau hefðu farið inn.

Hvað gerist næst?

Það er toppslagur í næstu umferð en þá fer KR upp í Árbæ og etur kappi við Fylki sem situr í efsta sæti. Það verður gríðarlega áhugaverður leikur enda bæði lið á siglingu og með 12 stig. Blikar fá Val í heimsókn og það verður einnig áhugavert og mun hafa áhrif á toppbaráttuna.

Stefán Árni í þann mund að skora fyrsta mark kvöldsins.vísir/bára

Stefán Árni: Bara geggjuð tilfinning

Stefán Árni Geirsson, leikmaður KR, er fæddur árið 2000 og var að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Vesturbæjarstórveldið þegar KR bar sigurorð af Breiðablik í sjöttu umferð PepsiMax deildarinnar fyrr í kvöld 3-1. Hann var ekki að leysa af neinn aukvisa heldur Óskar Örn Hauksson sem er leikja- og markahæstur KR-inga frá upphafi. Hann var spurður að því hvað flýgur í gegnum hausinn á ungum manni þegar boltinn syngur í netinu eftir 90 sekúndur af hans fyrsta leik.

„Ég fæ bara boltann í góðri stöðu og keyri á markið. Flóki tekur gott hlaup og býr til pláss fyrir mig og ég sný og læt vaða á markið og hann fór inn. Bara geggjuð tilfinning. Óskar Örn er geggjaður leikmaður og erfitt að fá mínútur en ég er bara að nýta sénsinn eins vel og ég get og Rúnar hefur látið mig vita að hann treystir mér fyrir þessu hlutverki“.

Blikar voru ekki líkir sjálfum sér í kvöld en kom það Stefáni á óvart?

„Það kom á óvart. Ég myndi samt ekki segja að þeir hafi verið slappir. Við spiluðum þetta bara vel og vissum hvað við ætluðum að gera og lokuðum á það sem þeim finnst þægilegt að gera. Þetta var kannski meira að við vorum að spila vel“.

„Við förum í hvern leik til að vinna og að safna sem flestum stigum. Það er stutt á milli í þessu samt og fullt af góðum liðum en nú er það frábært að vera komnir á toppinn eða ég held að við séum komnir á toppinn“, sagði Stefán þegar hann var spurður að því hvernig hann sæi framhaldið fyrir sér en KR er í öðru sæti eftir kvöldið þó. Þeir eru jafnir að stigum við Fylki sem hafa skorað fleiri mörk. Stefán hélt áfram: „Ég ætla svo að reyna mitt besta og vonast til þess að fá aukamínútur“.

Óskar á hliðarlínunni í kvöld.vísir/bára

Óskar Hrafn: Við förum bara heim og vöknum með ástvinum okkar og höldum áfram lífinu

Það var kanski vitað mál að Óskar Hrafn þjálfari Blika myndi ekki vera brosandi þegar blaðamaður náði tali af honum og það varð raunin.

„Það má segja það, við vorum ekki tilbúnir og vorum ólíkir sjálfum okkar í fyrri hálfleik og gerðum okkur mjög erfitt fyrir með því hvernig við byrjuðum leikinn,“ sagði Óskar þegar hann var spurður að því hvort að hans menn hafi ekki verið tilbúnir í leikinn.

KR hafa verið þekktir fyrir að stýra leikjum sem þeir komast yfir í og var Óskar spurður að því hvort sú hafi verið raunin í kvöld að hans menn hafi ekki fundið lausnir á leik KR.

„Jú jú, KR eru frábærir og mikið búið að tala um það að þeir megi ekki komast yfir og ég tek ekkert af KR-ingum en við virkuðum þreyttir, þungir og orkulausir. Við virkuðum líka pínu stressaðir og ég átta mig ekki alveg á því hvort leikjaálagið sé farið að hafa áhrif í þessum leik.“

„Ég var hæstánægður með seinni hálfleikinn hjá okkur og við hefðum alveg getað jafnað leikinn ef að því er að skipta. Fyrri hálfleikurinn samt með því daprasta sem við höfum sýnt.“

Óskar var þá spurður að því hvort KR hafi grætt á því fyrir þennan leik að hafa fengið hvíld í seinustu umferð. Þjálfari Blika var ekki alveg á því

„Þú segir það en ég ætla ekkert að dæma um það. Sumir spila þrjá leiki á sjö dögum á meðan aðrir spila einn þannig að já já það hjálpar til. Það er búið að vera mikið álag á okkur en við getum ekki notað það sem afsökun. Það er bara eins og það er en hvort það er hluti af skýringunni á því að við vorum seinir úr startholunum. Eftir stendur að KR-ingar voru betri en við og unnu þennan leik.“

„Ég þarf náttúrlega bara að segja við þá að þetta var bara fótboltaleikur sem tapaðist. Það gerðist ekkert meira og við förum bara heim og vöknum með ástvinum okkar og höldum áfram lífinu. Ég hef svo sem engar áhyggjur af þessum drengjum, þeir eru mannlegir og menn eru ekki alltaf í sínu allra allra besta formi. Það er bara leiðinlegt að það hafi verið í dag í fyrri hálfleik en þú stjórnar því ekki“, sagði Óskar að lokum en hann var spurður að því hvað hann þurfi að segja við strákana sína.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira