Umfjöllun og viðtöl: FH - Fylkir 1-2 | Sjóðheitir Árbæingar á toppinn

Ísak Hallmundarson skrifar
Fylkir - Grótta Pepsí Max deild karla 2020 Ksí fótbolti
Fylkir - Grótta Pepsí Max deild karla 2020 Ksí fótbolti Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

FH tók á móti Fylki í Pepsi Max deild karla í dag. Lokatölur í Kaplakrika 1-2 Fylki í vil.

Fyrstu 30 mínúturnar voru rólegar og skiptust liðin á að komast í ákjósanlegur stöður sem einhvernveginn varð ekkert úr. Það var síðan á 30. mínútu að Þórður Gunnar Hafþórsson kom gestunum úr Árbæ yfir. Daði Ólafsson lúðraði boltanum fram, Þórður fær hann úti á kanti og er allt í einu kominn einn í gegn og skorar örugglega fram hjá Gunnari í hornið, en það má setja spurningarmerki við varnarleik FH í markinu.

Við þetta hresstust heimamenn aðeins og fengu nokkur hættuleg færi næstu mínútur, en Aron Snær Friðriksson var vel á verði á milli stanganna hjá Fylki.

Í blálokin á fyrri hálfleik fékk Fylkir dauðafæri. Hákon Ingi Jónsson var kominn einn í gegn, fór framhjá Gunnari Nielsen í marki FH en setti boltann í stöngina og út fyrir opnu marki. Staðan í hálfleik því 0-1.

Fylkismenn voru líklegri í byrjun seinni hálfleiks en eftir tvöfalda skiptingu hjá FH á 63. mínútu lifnaði aðeins við heimamönnum og þeir uppskáru jöfnunarmark á 67. mínútu. Þar var að verki Daníel Hafsteinsson eftir góðan undirbúning Steven Lennon, en Daníel þrumaði boltanum í nærstöngina og inn.

Þetta var þó skammgóður vermir fyrir FH en á 72. mínútu skoraði Arnór Borg Guðjohnsen, sem kom inn á sem varamaður, sigurmark leiksins eftir gott samspil og góða fyrirgjöf frá Djair Parfitt-Williams.

FH fékk ágætisfæri til að jafna í uppbótartíma en enn og aftur varði Aron Snær vel fyrir Fylki, í það skiptið frá Jónatani Inga Jónssyni. Lokatölur í Árbænum 2-1 fyrir Fylki, en liðið er nú á toppi deildarinnar með 12 stig, jafnmörg stig og KR sem á leik til góða. FH situr í 8. sæti með sjö stig.

Af hverju vann Fylkir?

Þeir voru líklegri allan leikinn. Varnarleikur þeirra þéttur eins og hann hefur verið í sumar og lítið um mistök í þessum leik fyrir utan í jöfnunarmarki FH. Aron Snær var frábær í markinu hjá Fylki og varði nokkrum sinnum meistaralega. FH-ingar virkuðu andlausir og varnarleikurinn ekki upp á marga fiska, þeir fundu líka fá svör við þéttri vörn Fylkis.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Snær Friðriksson átti frábæran leik í marki Fylkis og varði vel bæði í stöðunni 0-1 og 1-2 fyrir Fylki. Djair Parfitt-Williams var frískur úti á kanti og bjó til nokkrar hættulegar sóknir. Þórður Gunnar Hafþórsson átti góðan leik áður en hann fór haltrandi af velli og Fylkisliðið í heild var gríðarlega þétt og erfitt að taka einhverja nokkra út fyrir sviga.

Daníel Hafsteinsson átti hvað skástan leik af leikmönnum FH.

Hvað gekk illa?

Vörn FH leit virkilega illa út á köflum og má setja spurningarmerki við varnarlínuna í báðum mörkum Fylkis.

Dauðafærið sem Hákon Ingi klúðraði fyrir Fylki undir lok fyrri hálfleiks hefði hæglega getað kostað liðið stig, en sem betur fer fyrir hann og Fylki kom það ekki að sök.

Hvað gerist næst?

Fylkir fær KR í heimsókn í Árbæinn, en það verður toppslagur þar sem þetta eru tvö efstu lið deildarinnar í dag. FH fer í heimsókn í Grafarvoginn og mætir Fjölni, leikur sem FH verður að vinna.

Ólafur gat verið sáttur að leik loknum.vísir/daníel

Ólafur Stígsson: Gríðarlega stoltur

,,Frábær sigur í geggjuðum leik og ég er gríðarlega stoltur af strákunum. Við nýttum stöðurnar okkur ágætlega og við hefðum að vísu getað fengið 2-0 inn í hálfleik þegar boltinn fór í stöngina, en svo ver Aron auðvitað frábærlega þarna í lokin,‘‘ voru fyrstu viðbrögð Ólafs Stígssonar, þjálfara Fylkis, eftir leik.

Fylkir hefur núna unnið fjóra leiki í röð og hafa verið sannfærandi í sinni spilamennsku.

,,Við förum bara inn í þessi grunnatriði sem við erum búnir að vinna aðeins með. Vinnusemi og dugnaður og það er akkúrat það sem strákarnir eru búnir að sýna í þessum leikjum og vonandi getum við haldið því áfram.

Við erum bara að einbeita okkur að okkur og erum ekki mikið að spá í hvað aðrir eru að segja um okkur. Þá er maður kominn í ógöngur með það sem maður er að gera. Við einbeitum okkur að okkur og vonandi gengur vel áfram.‘‘

Fylkir er með tólf stig á toppnum eftir sex umferðir.

,,Við förum bara inn í alla leiki til að reyna að ná stigum og erum komnir með tólf stig, en það er bara svo mikið eftir af þessu móti og við höldum bara áfram. Vonandi náum við að hala inn einhverjum fleirum í viðbót,‘‘ sagði Ólafur Stígsson að lokum.

Ólafur Kristjánsson.vísir/daníel

Óli Kristjáns: Vorum stemmningslausir

,,Það má kannski setja marga miða á þetta. Mér fannst við einfaldlega slakir í fyrri hálfleik. Við vorum hægir, vorum stemmningslausir, fórum ekki í návígi, fórum ekki í pressu, fáum upp á síðasta þriðjung stöður sem við förum illa með, varnarleikurinn í fyrsta markinu var bara engan veginn nógu góður. Það kemur bara langur bolti, hægt að skalla hann heim eða negla honum í burtu en Fylkismaðurinn er fyrstur á hann.

Síðan fannst mér koma smá kraftur í seinni hálfleik en það er kraftur sem þarf auðvitað að vera frá upphafi. Þegar við jöfnum erum við með ,,momentum‘‘ í leiknum og þá aftur köstum við því frá okkur með því að færa þeim markið á silfurfati,‘‘ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.

,,Þú getur kallað þetta andleysi, sem er slæmt í keppnisíþróttum, og svo á köflum dapran varnarleik. Við tökum ekki þau færi sem við fáum í leiknum, við fáum undir lokin reyndar til að jafna en við nýtum það ekki.‘‘

FH hefur lekið inn tólf mörkum í fimm leikjum, það er eitthvað sem er ekki í boði ef lið ætlar að vera í toppbaráttu.

,,Við harðneitum að verjast á köflum og sem lið erum við ekki nógu þéttir í þessum atriðum. Eins og í mörkunum í dag, þá var kannski ekki mikil hætta þegar stöðurnar komu upp. Á móti Blikunum töpum við líka bolta fyrir utan teiginn og það er komið mark í andlitið á okkur. Virðingin fyrir því að verjast er ekki nær,‘‘ sagði Ólafur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.