Erlent

„Fordæmalaus og söguleg spilling“ Donalds Trumps

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mitt Romney, öldungardeildarþingmaður repúblikana.
Mitt Romney, öldungardeildarþingmaður repúblikana. Vísir/getty

Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Bandaríkjunum, segir það „fordæmalausa og sögulega spillingu“ að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi mildað refsingu Rogers Stone, fyrrum ráðgjafa síns og vinar.

Stone var dæmdur í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi fyrir að ljúga að Bandaríkjaþingi, hindra framgang réttvísinnar og reyna að hafa áhrif á vitnisburð annarra. Hann átti að hefja afplánun í alríkisfangelsi í Georgíuríki næsta þriðjudag en í gær tilkynnti Hvíta húsið að dómurinn hefði verið mildaður. Stone þarf þar með ekki að afplána fangelsisvist.

Romney er einn fárra innan herbúða Repúblikanaflokksins sem ítrekað hafa gagnrýnt Trump opinberlega. Hann hélt uppteknum hætti á Twitter-reikningi sínum í dag, þar sem hann var harðorður í garð forsetans.

„Fordæmalaus, söguleg spilling: bandarískur forseti mildar dóm yfir manneskju sem dæmd var fyrir að ljúga, til að hlífa umræddum forseta,“ sagði Romney í færslu sinni.

Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum telja að Romney verði líklega sá eini meðal þingmanna repúblikana sem viðri skoðun af þessum meiði. Fæstir þeirra hafa tjáð sig nokkuð um málið.

Hvíta húsið sagði einnig í yfirlýsingu að Stone væri fórnarlamb „Rússa-ruglsins (e. Russia Hoax) sem vinstrimenn og bandamenn þeirra í fjölmiðlum hafi haldið á lofti í áraraðir til þess að grafa undan forsetanum.“

Þá er þar einnig gefið í skyn að Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) hafi látið CNN-fréttastofuna vita af áhlaupi sem hún gerði á heimili Stone, þar sem tökulið frá fréttastofunni var viðstatt handtöku hans.


Tengdar fréttir

Trump mildar dóm yfir fyrrum ráðgjafa sínum

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mildað fangelsisdóm sem Roger Stone, vinur forsetans og fyrrum ráðgjafi, hlaut fyrir að ljúga að Bandaríkjaþingi, að hindra framgang réttvísinnar og að reyna að hafa áhrif á vitnisburð annarra. Stone átti að hefja afplánun í alríkisfangelsi í Georgíuríki næstkomandi þriðjudag.

Mitt Romney á meðal mótmælenda í Washington

Mitt Romney, öldungardeildarþingmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, var einn af um þúsund mótmælendum sem marseruðu í átt að Hvíta húsinu í morgunsárið í Washington í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×