Umfjöllun og viðtöl: Grótta - ÍA 0-4 | Aftur skoraði ÍA fjögur á útivelli

Andri Már Eggertsson skrifar
ÍA vann þægilegan sigur á Seltjarnarnesi í Pepsi Max deild karla í dag.
ÍA vann þægilegan sigur á Seltjarnarnesi í Pepsi Max deild karla í dag. Vísir/Bára

Fyrsta leiknum í 6. umferð Pepsi Max deildar karla lauk með stórsigri ÍA á Gróttu á Seltjarnarnesi. Lokatölur 4-0 fyrir Skagamönnum en Seltirningar höfðu átt góðu gengi að fagna fyrir leik og náð í sín fyrstu stig í deildinni í síðustu tveimur leikjum.

Frábær fyrri hálfleikur Skagamanna

ÍA var ekki lengi að brjóta ísinn þegar Tryggvi Hrafn fór heldur auðveldlega framhjá varnarmönnum Gróttu.

Tryggvi Hrafn gaf á Hall Flosason sem fékk allan heimsins tíma í að undirbúa fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Viktor Jónssyni sem skallar boltann í markið. Hægt er að setja spurningamerki við Hákon Rafn Valdimarsson í marki Gróttu fyrir að ná ekki að halda þessum bolta sem beint á hann. 

Það leið ekki á löngu þangað til Gísli Laxdal Unnarsson kom með ágætis sendingu fyrir markið. Arnar Þór Helgason tæklar boltann beint út í teiginn þar sem Stefán Teitur Þórðarson fær góðan tíma til að stilla miðið og leggur boltann auðveldlega í markið.

Tæplega fimm mínútum eftir mark Stefáns Teits bætti Brynjar Snær Pálsson við þriðja marki Skagamanna. Aron Kristófer Lárusson átti góða sendingu á Brynjar Snæ sem náði að snúa af sér varnarmann Gróttu auðveldlega og á skot rétt fyrir utan teiginn sem endar í netinu.

ÍA voru ekki hættir heldur bætti Viktor Jónsson við öðru marki sínu í leiknum og fjórða marki Skagamanna þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum.

Seinni hálfleikur var talsvert rólegri en sá fyrri. Það var orðið vitað að stigin þrjú væru á leið upp á Skaga og voru bæði lið meðvituð um að það eru margir leikir framundan og gott væri að spara orkuna. Bæði lið nýttu allar fimm skiptingar sínar og fengu því margir að taka þátt í leiknum. ÍA náði í fyrsta skiptið á þessu tímabili að halda markinu sínu hreinu og gat þjálfari liðsins Jóhannes Karl Guðjónsson glaðst yfir því.

Af hverju vann ÍA?

ÍA mætti í leikinn með mikinn kraft og dugnað. Þeir pressuðu lið Gróttu mjög hátt sem leiddi vörn og markmann Gróttu í mörg mistök sem Skagaliðið nýtti sér. Pressan og ákefðin skilaði sér með fjórum góðum mörkum í fyrri hálfleik og eftir það spilaði ÍA vel út úr sínu og héldu markinu hreinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Jónsson var mjög góður í dag hann kom sér í góðar stöður sem hans leikmenn fundu hann í og skilaði hann inn tveimur mörkum.

Stefán Teitur Þórðarson er búinn að vera mjög góður í allt sumar og hélt hann því áfram hann var að skapa mörg góð færi bæði fyrir sig og félaga sína.

Það reyndi ekki mikið á Árna Snæ markmann ÍA en þegar Grótta fengu sín færi í leiknum var hann stöðugur, stóð vaktina vel milli stanganna og sýndi það að hann getur bæði spilað stutt á varnarmenn sína og þrumað boltanum fram völlinn og skapað þar góðar stöður fyrir liðsfélaga sína.

Í hálfleik fór Villhjálmur Alvar Þórarinsson meiddur af velli og í hans stað kom Gunnar Oddur Hafliðason óreyndur dómari sem hefur fengið lítið af tækifærum í Pepsi Max deild karla sem aðaldómari. Hann sýndi það með góðri frammistöðu sinni að hann getur vel dæmt í þessari deild.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Gróttu var í molum þeir réðu engan vegin við hraðan í ÍA liðinu. Miðjumenn Gróttu áttu heldur ekki góðan leik, þeir gáfu ÍA alltof langan tíma í sínar aðgerðir sem skilaði sér með mörgum dauðafærum og mörkum. 

Pétur Theódór hefur skorað í síðustu tveimur leikjum en í dag var hann ekki góður kom sér sjaldan í góðar stöður og fór illa með þau færi sem hann fékk.

Hvað er framundan?

Grótta fer norður á Akureyri og spilar þar mjög mikilvægan leik á móti KA mönnum næsta laugardag klukkan 16:00.

ÍA eru á góðri siglingu eftir að hafa safnað sjö stigum í síðustu þremur leikjum og spila þeir degi síðar útileik á móti Víking Reykjavík klukkan 19:15

Ágúst Gylfason: Varnarleikurinn var í molum.

„Byrjun leiksins sýndi það að við mætum alls ekki klárir í þetta verkefni. Við vorum töluvert betri í seinni hálfleik þar sem við náðum að halda út 0-0 jafntefli í 45 mínútur. En það gefur auga leið að við vorum ekki nógu góðir í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var í molum og var það sangjarnt að við vorum fjórum mörkum undir í hálfleik,” sagði Gústi Gylfa svekktur.

Fyrsta mark leiksins var heldur skrautlegt og virtist Hákon Rafn markmaður Gróttu eiga að gera talsvert betur. Gústi vildi ekki bara henda honum fyrir rútuna heldur var varnarleikur liðsins illa skipulagður þar sem langt var á milli manna og var tíminn sem ÍA fékk á boltanum alltof mikill sem þeir nýttu sér og gerðu vel.

„Ég sagði við strákana í hálfleik að vera þolinmóðir og ekki fá á sig mark næstu 45 mínúturnar. Þeir sem komu inná skiluðu sínu framlagi vel en auðvitað skemmir þessi fyrri hálfleikur allt fyrir okkur.”

Gústi talaði um að til þess að bæta varnarleikinn þurfa þeir að vera þéttari sem heild, grimmari á leikmanninn sem er með boltann og koma boltanum oftar í burtu frá markinu.

Jóhannes Karl: Davíð Þór vanvirðir liðin í deildinni

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var eðlilega sáttur með frammistöðu sinna manna en hann sendi Davíði Þór Viðarssyni - sérfræðingi Pepsi Max Stúkunnar - pillur í viðtali að leik loknum.

„Við vissum alveg að þetta yrði ekkert auðvelt hérna þannig við gáfum vel í í byrjun leiks, pressuðum hátt á vellinum og þvinguðum þá í mistök. Við sköpuðum okkur færi sem endaði með góðu marki snemma leiks og við fylgdum því vel eftir. Við fengum alveg færin í að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik,” sagði Jóhannes Karl hæstánægður eftir leik og hélt áfram.

„Ég er virkilega ánægður með þessi þrjú stig. Þá sérstaklega að þú óskaðir eftir að við myndum halda hreinu fyrir leik sem við gerðum á móti mjög vel spilandi Gróttu liði sem er með marga góða leikmenn og það gladdi mig mikið,” sagði Jóhannes Karl og glotti en undirritaður hafði óskað eftir því að Skagamenn myndu halda hreinu í viðtali fyrir leik.

Það hefur verið leikið þétt í deildinni til þessa og síðari hálfleikurinn talsvert rólegri en sá fyrri.

„Þetta er búið að vera ágætis álag í mótinu og áttum við ágætis möguleika á að spara okkur í seinni hálfleiknum. Það er ekkert leyndarmál að Marcus Johansson er ekki kominn í sitt besta stand og fleiri leikmenn sem eru ekki komnir í 100% form þannig við drápum leikinn. Maður hefði samt alltaf viljað ógna marki Gróttu meira í þeim seinni. Núna er vika á milli leikja og ættum við þá að hafa alla leikmenn klára í næsta leik á móti Víking Reykjavík.”

ÍA er komið í 2. sæti deildarinnar - um stundarsakir - og var Jói Kalli spurður um framhaldið.

„Ég er virkilega ánægður með hvað það er mikil framför í hlutunum hjá okkur þó ég hefði viljað vinna síðasta leik en við unnum leikinn í dag. Þetta blasir vel við mér og ætla ég að vona að sumarið blasi vel við fleirum þó að umræðan oft á tíðum að deildin verði tvískipt. Davíð Þór Viðarsson telur gæði oft á tíðum ekki nógu góð í hinum liðunum í landinu sem mér finnst alveg ótrúlega fáránleg ummæli frá manni sem er sérfræðingur á Stöð 2 Sport.”

„Það eru fullt af góðum liðum í deildinni. Mörg góð lið sem eru að byggja upp til framtíðar og er það vanvirðing við deildina að tala um það að sumir leikir séu ekki eins merkilegir og aðrir sem er algjör vanvirðing við fótboltan í landinu,” sagði Jói Kalli um umræðuna er varðar tvískiptingu deildarinnar.

Umræðan um ÍA liðið hefur verið mikið um að þeir eru ekki nægilega stöðugir í sínum leik. Jóhannes Karl er ekki sammála þeirri umræðu og segir að hans lið sé bara að spá í því hvað það geti gert betur og séu að vinna vel í sínum hlutum. Meðal annars að spila betri knattspyrnu en þeir hafi áður gert og því sé framtíðin á Skaganum mjög björt.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.