Burnley stöðvaði sigurgöngu Liverpool á Anfield

Ísak Hallmundarson skrifar
Jóhann Berg og Klopp sættust á jafntefli í dag.
Jóhann Berg og Klopp sættust á jafntefli í dag. getty/Clive Brunskill

Liverpool hafði unnið 24 leiki í röð á heimvelli sínum Anfield, áður en Jóhann Berg og félagar í Burnley mættu þangað í dag og náðu í stig. 

Andy Robertson kom Englandsmeisturunum yfir með frábæru skallamarki eftir sendingu frá Fabinho á 34. mínútu. Staðan var 1-0 fyrir Liverpool í hálfleik.

Heimamenn voru töluvert meira með boltann allan leikinn og leit allt út fyrir að þeir myndu sigra sinn 25. leik í röð á Anfield. Annað kom á daginn. Jay Rodriguez jafnaði metin á 69. mínútu með góðu skoti rétt innan vítateigs.

Jóhann Berg Guðmundsson var hársbreidd frá því að koma Burnley í forystu á 87. mínútu, þegar hann þrumaði boltanum í slánna frá vítapunktinum eftir hornspyrnu. Munaði engu að okkar maður myndi tryggja Burnley sigurinn.

Lokatölur leiksins voru 1-1 jafntefli og þarf Liverpool því að vinna alla þrjá leiki sína sem eru eftir ef liðið ætlar að bæta stigamet Manchester City frá árinu 2018. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.