Fjórði sigur Rauðu djöflanna í röð

Ísak Hallmundarson skrifar
United menn hafa verið sjóðheitir undanfarið og raðað inn mörkum.
United menn hafa verið sjóðheitir undanfarið og raðað inn mörkum. getty/Peter Powell

Manchester United vann sinn fjórða leik í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið mætti Aston Villa á Vill Park í Birmingham. Lokatölur 3-0 fyrir United og er liðið nú aðeins stigi á eftir Meistaradeildarsæti.

Bruno Fernandes skoraði fyrsta mark United úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 27. mínútu.

Hinn 18 ára gamli Mason Greenwood heldur áfram að fara á kostum á leiktíðinni og í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom hann Rauðu djöflunum í 2-0 þegar hann skoraði með góðu hægrifótarskoti rétt innan teigs. 

Það kom síðan loksins að því að Paul Pogba skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu, sem hófst í ágúst á síðasta ári, þegar hann fékk boltann rétt fyrir utan teig og skoraði í hornið framhjá Pepe Reina í marki Villa. 

United fengu síðan urmul af marktækifærum og hefðu hæglega getað skorað nokkur mörk til viðbótar en 3-0 sigur staðreynd og er liðið einungis stigi á eftir Leicester sem situr í 4. sætinu og tveimur stigum á eftir Chelsea í 3. sætinu þegar fjórar umferðir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni.

Aston Villa situr í næstneðsta sæti deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.