Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur 1-5 Valur | Valsmenn refsuðu vængbrotnum Víkingum grimmilega

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson skoraði tvö mörk gegn Víkingi í kvöld. Það voru hans fyrstu mörk í meistaraflokki.
Valgeir Lunddal Friðriksson skoraði tvö mörk gegn Víkingi í kvöld. Það voru hans fyrstu mörk í meistaraflokki. vísir/daníel

Valur vann stórsigur á Víkingi, 1-5, þegar liðin mættust í fyrsta leik 5. umferðar Pepsi Max-deildar karla í kvöld.

Sigurinn var helst til stór miðað við gang leiksins en Valsmenn voru miskunnarlausir og refsuðu bikarmeisturunum fyrir nánast hver einustu mistök sem þeir gerðu.

Patrick Pedersen skoraði tvö mörk fyrir Val sem og Valgeir Lunddal Friðrikssyni sem skoraði sín fyrstu mörk í meistaraflokki í kvöld. Aron Bjarnason skoraði fimmta og síðasta mark Vals. Óttar Magnús Karlsson gerði mark Víkings strax á 4. mínútu.

Víkingar voru án þeirra Kára Árnasonar, Sölva Geirs Ottesen og Halldórs Smára Sigurðssonar sem voru reknir af velli í leiknum gegn KR-ingum í síðustu umferð. Þeirra var sárt saknað í leiknum í kvöld.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og strax á 4. mínútu kom Óttar Víkingi yfir eftir góðan undirbúning Dofra Snorrasonar. Þetta var fimmta mark hans í sumar.

Fjórum mínútum síðar jafnaði Valgeir eftir sókn Vals upp hægri kantinn og sendingu Kristins Freys Sigurðssonar. Skömmu síðar varði Hannes Þór Halldórsson tvisvar í röð, fyrst frá Ágústi Eðvald Hlynssyni og síðan frá Óttari.

Á 12. mínútu náðu gestirnir svo forystunni. Tómas Guðmundsson gerði sig þá sekan um skelfileg mistök og færði Valsmönnum boltann. Þórður Ingason varði frá Kristni Frey úr dauðafæri en Pedersen tók frákastið og skoraði.

Á markamínútunni, þeirri 43., fengu Valsmenn aðra gjöf. Valgeir átti þá skot fyrir utan vítateig sem Þórður missti klaufalega undir sig og staðan orðin 1-3, gestunum í vil.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri. Pedersen skoraði fjórða mark Vals og gerði endanlega út um leikinn á 57. mínútu. Lasse Petry vann boltann þá á miðjunni, kom honum á Kristin Frey sem lék á Tómas og renndi boltanum út á Pedersen sem skoraði af öryggi, sitt sjötta mark í sumar.

Víkingar fengu fín færi eftir þetta en Hannes var frábær í marki Vals og varði nokkrum sinnum vel. Valsmenn bættu hins vegar einu marki við áður en yfir lauk. Það gerði Aron á 79. mínútu. Petry átti þá sendingu inn fyrir vörn Víkings, Þórður kom út úr markinu en missti af boltanum og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Aron.

Lokatölur 1-5, fyrir Val sem hefur fengið öll níu stig sín í Pepsi Max-deildinni á útivelli. Víkingur er áfram með fimm stig.

Hannes Þór Halldórsson ver frá Ágústi Eðvald Hlynsson eins og hann gerði svo oft í leiknum.vísir/daníel

Af hverju vann Valur?

Þrátt fyrir að tapa 1-5 voru Víkingar ágætir úti á vellinum. En þeir voru afleitir í báðum vítateigunum. Þeir gerðu sig seka um fáránleg mistök í vörninni og nýttu ekki færin sín í sókninni.

Valsmenn voru ekki lengi að jafna sig eftir að hafa lent undir strax í upphafi leiks. Þeir pressuðu Víkinga með góðum árangri og sóttu upp kantana, sérstaklega þann vinstri þar sem Valgeir fékk allt heimsins pláss og nýtti það frábærlega. Í seinni hálfleik færðu gestirnir sig aðeins aftar á völlinn og beittu skyndisóknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn í kvöld og allir leikmennirnir sem komu inn áttu flottan leik. Valgeir skoraði tvö mörk, Kristinn Freyr átti þátt í þremur mörkum og Petry átti eina stoðsendingu og vann boltann í fjórða markinu.

Pedersen var baneitraður í framlínu Vals og Kaj Leo vann mjög vel með Valgeiri á vinstri kantinum. Þá átti Hannes dúndurleik í markinu og varði nokkrum sinnum frábærlega.

Hvað gekk illa?

Víkingar voru full gestrisnir í kvöld og gáfu Valsmönnum í raun fjögur mörk. Tómas Guðmundsson, sem lék sinn fyrsta leik í fjögur ár, gerði afdrikarík mistök í öðru marki Vals og leit illa út í því fjórða. Þórður klikkaði svo illilega í þriðja og fimmta markinu.

Ágúst Eðvald er ofboðslega hæfileikaríkur og vinnusamur en verður að nýta færin sín betur. Í þessum leik fékk hann þrjú upplögð færi en Hannes sá alltaf við honum. Óttar hefur skorað fimm af sex mörkum Víkings í sumar og bikarmeistararnir verða að fá mörk frá fleirum.

Hvað gerist næst?

Á sunnudaginn fara Víkingar upp í efri byggðir Kópavogs og mæta HK-ingum. Þeir verða þá búnir að endurheimta Kára og Halldór Smára. Á mánudaginn tekur Valur svo á móti Stjörnunni á Hlíðarenda. Það verður fyrsti leikur Stjörnumanna síðan 24. júní.

Arnar: Hef engar áhyggjur

Arnar Gunnlaugsson segir að Víkingar megi ekki missa hausinn niður í bringu þótt tveir síðustu leikir hafi tapast.vísir/daníel

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, bar sig vel eftir 1-5 tap fyrir Val í kvöld. Hann sagði að dýrkeypt mistök hefðu orðið bikarmeisturunum að falli.

„Þetta eru vonbrigði. Þetta var mjög skrítinn leikur að mörgu leyti. Við töpuðum 1-5 en það kæmi mér ekki á óvart að Hannes yrði valinn maður leiksins,“ sagði Arnar eftir leik.

„Fyrstu 20 mínúturnar voru frábærar en við nýttum ekki meðbyrinn nægilega vel. Við vorum hrikalega miklir klaufar í vörninni. Mér fannst eins og Valur hafi skorað eftir hver einustu mistök sem við gerðum. Valsmenn refsuðu okkur grimmilega. Mér fannst við tapa leiknum frekar en Valur að hafi unnið hann.“

Víkingur komst yfir á 4. mínútu en Valur jafnaði fjórum mínútum síðar og leit ekki til baka eftir það.

„Fyrstu 20 mínúturnar voru frábærar og ég hélt við ætluðum að rúlla yfir þá. En svo fengu þeir eina sókn og skoruðu. Svo fylgdu mistök í kjölfarið og mig minnir að við höfum fengið tvö dauðafæri í stöðunni 1-1. Það er stutt á milli. Þetta er fínn lærdómur fyrir marga af okkar leikmönnum,“ sagði Arnar.

„Þetta minnti mig svolítið á Víkingsliðið fyrri hluta síðasta tímabils. Við gerðum barnaleg mistök sem reyndust dýrkeypt.“

Víkingur hefur tapað tveimur leikjum í röð og er aðeins með fimm stig eftir fimm umferðir í Pepsi Max-deildinni.

„Ég hef engar áhyggjur. Menn eru að vorkenna sjálfum sér núna og finnst eins allt gangi okkur í mót. Við þurfum að hætta að væla og vinna vinnuna okkar. Við erum með fínasta lið og þurfum bara að girða okkur aðeins í brók og gera betur næst,“ sagði Arnar að endingu.

Heimir: Alltaf jákvætt þegar breytingar skila sér

Heimir Guðjónsson og aðstoðarmaður hans, Srdjan Tufegdzic.vísir/sigurjón

Það lá vel á Heimi Guðjónssyni, þjálfara Vals, eftir stórsigurinn á Víkingi í kvöld.

„Þetta byrjaði ekki vel. Þeir byrjuðu ekkert ósvipað og gegn FH og KR, með látum, og við vorum búnir að tala um það. Samt byrjuðum við ekki nógu vel,“ sagði Heimir eftir leik. 

„En við sýndum góðan karakter, komum til baka, náðum að jafna fljótlega og eftir það fannst mér við spila heilt yfir vel.“

Víkingar stilltu upp óhefðbundinni varnarlínu í kvöld og Valsmenn settu hana undir mikla pressu. Það gaf góða raun.

„Auðvitað munaði um þrjá reynslumestu menn þeirra. Við náðum að nýta okkur það. En það var fínt að fá þrjú stig á erfiðum útivelli. Víkingsliðið er mjög gott,“ sagði Heimir.

Hann gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá 1-4 tapinu fyrir ÍA á föstudaginn og þær lukkuðust vel.

„Það er alltaf jákvætt þegar maður gerir breytingar og þær skila sér,“ sagði Heimir kíminn. „Þeir sem komu inn í byrjunarliðið stóðu sig vel.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.