Erlent

Greindist með svartadauða í Innri-Mongólíu í Kína

Telma Tómasson skrifar
Baktería sem nefnist Yersinia pestis veldur svartadauða.
Baktería sem nefnist Yersinia pestis veldur svartadauða. CDC/Getty

Stjórnvöld í Kína hafa aukið varúðarráðstafanir eftir að íbúi í borginni Bayannur í sjálfstjórnarhéraðinu Innri-Mongólíu greindist með bakteríu sem leiðir til sjúkdóms er nefndur hefur verið svartidauði. Maðurinn, sem er smali, hefur verið settur í einangrun, en líðan sögð eftir atvikum.

Ekki er vitað hvernig maðurinn smitaðist og er málið í rannsókn. Í frétt BBC segir að einnig sé grunur um annað smit á svæðinu.

Á Vísindavefnum segir að baktería sem nefnist Yersinia pestis valdi svartadauða. Sjúkdómurinn er fyrst og fremst bundinn við nagdýr, til dæmis rottur, en hann getur borist í menn með flóm nagdýra og valdið lungna- og kýlapest.

Lungnapestin getur síðan borist manna á milli með úðasmiti við hósta. Til eru sýklalyf gegn bakteríunni, en þau koma þó aðeins að gagni ef þau eru gefin snemma eftir sýkingu því að sjúkdómsgangur svartadauða er hraður, segir á Vísindavefnum.

Svartidauði barst til Íslands tvisvar á 15. öld, árin 1402 og 1495. Talið er að 75 til 200 milljónir hafi látist af völdum svartadauða, víðs vegar um heiminn. Sjúkdómurinn hefur gengið yfir heimsbyggðina í þremur faröldrum, á 6. 14. og 19. öld. Sjúkdómsins gætir enn víða um heim, til dæmis í Asíu, Afríku og Ameríku. Til að mynda greinast árlega nokkur tilfelli sjúkdómsins í vesturhluta Bandaríkjanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.