Erlent

Rekja slys í íranskri kjarnorkustöð til mögulegs tölvuinnbrots

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem er sögð sýna afleiðingar uppákomunnar í Natanz-auðgunarstöðinni sem Kjarnorkustofnun Írans birti í gær.
Mynd sem er sögð sýna afleiðingar uppákomunnar í Natanz-auðgunarstöðinni sem Kjarnorkustofnun Írans birti í gær. Vísir/EPA

Írönsk yfirvöld ýja að því að slys sem varð í neðanjarðarstöð þar sem úran er auðgað í gær megi rekja til tölvuinnbrots. Almannavarnir landsins segir að Íran muni ná sér niður á ríkjum sem reyna að brjótast inn í tölvukerfi auðgunarstöðva.

Svo virðist sem að sprenging hafi orðið í Natanz-úranauðgunarstöðinni í Íran í gær. Engan sakaði samkvæmt yfirvöldum en myndir sýndu ummerki um bruna eða sprengingu á byggingu. Yfirmaður almannavarna segir að orsök atviksins liggi fyrir en ekki verði greint frá henni strax af öryggisástæðum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Að svara tölvuárásum er hluti af varnarmætti landsins. Ef sannað verður að landið hafi orðið fyrir tölvuárás munum við svara fyrir okkur,“ sagði Gholamreza Jalali, yfirmaður almannavarna, við ríkissjónvarpsstöð Írans.

Leiddar hafa verið líkur að því að Ísraelar eða Bandaríkjamenn kunni að hafa staðið að slíkri árás en hvorugt ríki hefur þó verið sakað um skemmdarverk berum orðum í írönskum fjölmiðlum. Heimildarmenn Reuters segjast telja að tölvuskemmdarverk hafi valdið eldsvoðanum en færðu ekki frekari sannanir fyrir þeirri skoðun sinni.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vildi ekki svara spurningum um nýlegar uppákomur í kjarnorkustöðvum Írana.

Natanz-stöðin varð fyrir tölvuárás með veiru sem almennt er talið að Bandaríkjamenn og Ísraelar hafi þróað árið 2010.


Tengdar fréttir

„At­vik“ í úranauðgunar­stöð í Íran

Kjarnorkustofnun Írans segir að „atvik“ hafi átt sér stað í Natanz-úranauðgunarstöðinni en að enginn mannskaði hafi orðið og að ekki sé hætta á mengun. Slökkviliðs- og björgunarmenn voru sendir í stöðina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×