Íslenski boltinn

KR ekki tapað tveimur deildarleikjum í röð á heimavelli í áratug

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Sigurjónsson með boltann í leik KR og Víkings í Meistarakeppni KSÍ í síðasta mánuði.
Atli Sigurjónsson með boltann í leik KR og Víkings í Meistarakeppni KSÍ í síðasta mánuði. vísir/hag

Íslandsmeistarar KR taka á móti bikarmeisturum Víkings á Meistaravöllum í stórleik 4. umferðar Pepsi Max-deildar karla á morgun.

KR hefur unnið báða útileiki sína, gegn Val og ÍA, en tapaði eina heimaleiknum til þessa fyrir HK.

Ef Víkingar vinna á Meistaravöllum á morgun verður það í fyrsta sinn í áratug sem KR-ingar tapa tveimur deildarleikjum á heimavelli sínum í Frostaskjóli.

Það gerðist síðast haustið 2010. KR tapaði fyrir FH 30. ágúst og fyrir Breiðabliki 16. september. Rúnar Kristinsson var þá nýtekinn við KR-liðinu.

KR tapaði reyndar fyrstu tveimur heimaleikjum sínum sumarið 2014, fyrir Val og FH, en þeir fóru fram á gervigrasvellinum í Laugardalnum.

Á síðasta tímabili fékk KR 29 af 33 stigum mögulegum á heimavelli. Tapið fyrir HK um þarsíðustu helgi var fyrsta tap KR á heimavelli síðan liðið tapaði fyrir Víkingi 1. júlí 2018, eða í 721 dag.

KR og Víkingur mættust á Meistaravöllum í Meistarakeppni KSÍ 7. júní síðastliðinn. KR-ingar unnu þá 1-0 sigur með marki Kennies Chopart.

Víkingar gerðu jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni en unnu stórsigur á FH-ingum, 4-1, í 3. umferðinni.

Leikur KR og Víkings hefst klukkan 17:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.