Íslenski boltinn

KR ekki tapað tveimur deildarleikjum í röð á heimavelli í áratug

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Sigurjónsson með boltann í leik KR og Víkings í Meistarakeppni KSÍ í síðasta mánuði.
Atli Sigurjónsson með boltann í leik KR og Víkings í Meistarakeppni KSÍ í síðasta mánuði. vísir/hag

Íslandsmeistarar KR taka á móti bikarmeisturum Víkings á Meistaravöllum í stórleik 4. umferðar Pepsi Max-deildar karla á morgun.

KR hefur unnið báða útileiki sína, gegn Val og ÍA, en tapaði eina heimaleiknum til þessa fyrir HK.

Ef Víkingar vinna á Meistaravöllum á morgun verður það í fyrsta sinn í áratug sem KR-ingar tapa tveimur deildarleikjum á heimavelli sínum í Frostaskjóli.

Það gerðist síðast haustið 2010. KR tapaði fyrir FH 30. ágúst og fyrir Breiðabliki 16. september. Rúnar Kristinsson var þá nýtekinn við KR-liðinu.

KR tapaði reyndar fyrstu tveimur heimaleikjum sínum sumarið 2014, fyrir Val og FH, en þeir fóru fram á gervigrasvellinum í Laugardalnum.

Á síðasta tímabili fékk KR 29 af 33 stigum mögulegum á heimavelli. Tapið fyrir HK um þarsíðustu helgi var fyrsta tap KR á heimavelli síðan liðið tapaði fyrir Víkingi 1. júlí 2018, eða í 721 dag.

KR og Víkingur mættust á Meistaravöllum í Meistarakeppni KSÍ 7. júní síðastliðinn. KR-ingar unnu þá 1-0 sigur með marki Kennies Chopart.

Víkingar gerðu jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni en unnu stórsigur á FH-ingum, 4-1, í 3. umferðinni.

Leikur KR og Víkings hefst klukkan 17:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.