Erlent

Strax handtökur fyrir brot á nýjum öryggislögum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá mótmælum í Hong Kong í dag. Samkvæmt hinum umdeildu öryggislögum sem tóku gildi í dag er refsivert að grafa undan yfirráðum kínverskra stjórnvalda í sjálfsstjórnarhéraðinu.
Frá mótmælum í Hong Kong í dag. Samkvæmt hinum umdeildu öryggislögum sem tóku gildi í dag er refsivert að grafa undan yfirráðum kínverskra stjórnvalda í sjálfsstjórnarhéraðinu. Getty

Níu mótmælendur hið minnsta voru handteknir í dag fyrir brot á nýjum og umdeildum öryggislögum í Hong Kong.

Löggjöfin er í raun svar kínverskra stjórnvalda við mótmælahrinu síðasta árs. Meðal annars er gert refsivert að grafa undan yfirráðum Kínverja yfir þessu sjálfsstjórnarsvæði með nokkrum hætti.

Gagnrýnendur laganna segja þau stangast á við samkomulagið sem var gert þegar Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong árið 1997 um að íbúar sjálfsstjórnarsvæðisins fengju að búa við önnur lög og aðrar reglur en íbúar á meginlandinu í fimmtíu ár.

Leiðtogi heimastjórnarinnar í Hong Kong segir markmiðið með öryggislögunum ekki eingöngu að refsa fyrir brot. „Þetta snýst líka um fælingarmáttinn. Að fæla fólk frá alvarlegum brotum á borð við uppreisn og hryðjuverkastarfsemi,“ sagði Carrie Lam.

Íbúar mótmæltu í dag og svaraði lögregla meðal annars með öflugum vatnsbyssum.

Leiðtogar á vesturlöndum tjáðu sig um málið. Evrópusambandið sagðist hafa áhyggjur af stöðunni og Þýskalandskanslari sömuleiðis.

„Við höfum umtalsverðar áhyggjur af þessari löggjöf. Mannréttindamál eru alltaf ofarlega á blaði þegar við eigum í viðræðum við Kínverja,“ sagði Angela Merkel.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.