Íslenski boltinn

Umræða um stóra gervigrasmálið: Meiddist alvarlega þrisvar og í öll skiptin á gervigrasi

Ísak Hallmundarson skrifar

,,Ég er sorgmæddur fyrir hönd Gunnars Þórs, sem lítur út fyrir að hafi verið að spila sinn síðasta leik á ferlinum og er með ónýtt hné. Það er kannski þessu gervigrasi að þakka sem við erum búnir að blóta í sand og ösku heillengi og algjörlega óþolandi að spila hér inni. Bæði við og Vængirnir vildum spila á KR-vellinum en samkvæmt einhverjum reglum KSÍ má það ekki, þannig ég er bara drullufúll,“ sagði Rúnar Kristinsson um hið umdeilda gervigras í Egilshöll eftir leik KR og Vængja Júpíters í Mjólkurbikarnum.

Málið var til umræðu í Mjólkurbikarmörkunum í gærkvöldi. Gunnar Þór Gunnarsson í KR meiddist alvarlega í leiknum og er talið líklegt að meiðslin hafi endað knattspyrnuferil hans.

Máni Pétursson veltir fyrir sér hvort að menn séu að spila á vitlausum skóm á gervigrasvöllum:

,,Það er minni slysahætta á gervigrasi heldur en almennilegum grasvelli, rannsóknir sýna það. En ég velti fyrir mér, margir eru að meiðast á gervigrasi og þá má velta fyrir sér hvort menn séu að spila bara á vitlausum skóm á þessu gervigrasi. Það eru til sérstakir gervigrasskór sem maður á að spila á. Ég ætla ekki að segja að Gunnar hafi verið á vitlausum skóm eða einhver annar, þetta getur líka hafa verið algjör óheppni.“

Hjörvar Hafliðason er ekki hrifinn af gervigrasvöllum á Íslandi og segist hafa meiðst þrisvar sinnum alvarlega á sínum ferli og í öll skiptin hafi það gerst á gervigrasi. 

,,Einu sinni í handónýtri höll í Keflavík árið 2001, svo í Egilshöll árið 2003 og svo á handónýtu gervigrasi KR-inga árið 2007. Þetta eru einu skiptin sem það hefur komið eitthvað fyrir mig,“ sagði Hjörvar. 

Eins og kom fram í viðtali við Rúnar vildu bæði liðin frekar spila leikinn á heimavelli KR.

,,Það sem mér finnst alveg ótrúlegt atriði, fyrst bæði lið vildu færa leikinn, af hverju var ekki hægt að gera það? Ég bara næ því ekki,“ sagði Máni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.