Íslenski boltinn

Heimir um Eið Aron og ÍBV: „Hann er ekki á leiðinni þangað“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eiðu Aron verður áfram í herbúðum Vals ef marka má orð Heimis Guðjónssonar.
Eiðu Aron verður áfram í herbúðum Vals ef marka má orð Heimis Guðjónssonar. vísir/daníel

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, segir að varnarmaður liðsins, Eiður Aron Sigurbjörnsson, sé ekki á förum frá félaginu.

Sögusagnir hafa verið um það að Eiður Aron vilji komast burt frá Val og greint var frá því í hlaðvarpsþættinum Dr. Football að Eiður Aron gæti mögulega verið á leiðinni til ÍBV á nýjan leik en hann lék með liðinu frá 2008 til 2014.

Heimir sagði í samtali við Fótbolti.net eftir bikarsigurinn á SR í gær að hann hafi ekki heyrt þessar sögusagnir og það sé ekkert til í þeim.

„Ég hef ekki heyrt þessar sögusagnir en hann er ekki á leiðinni þangað,“ sagði stuttorður Heimir er hann var spurður út í sögusagnirnar.

Eiður Aron var á varamannabekknum í fyrstu umferðinni en Heimir valdi frekar að byrja með miðverðina Orra Sigurð Ómarsson sem og Rasmus Christiansen. Eiður Aron var svo utan leikmannahóps í 2. umferðinni sökum meiðsla.

Valur mætir HK í Kórnum um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×