Erlent

Varar við af­leiðingum kórónu­veiru og in­flúensu á heil­brigðis­kerfið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Robert Redfield, yfirmaður Sóttvarnarmiðstöðvar Bandaríkjanna, Anthony Fauci, helsti smitsjúkdómasérfræðingur Bandaríkjanna og Brett Ðþ Giroir, aðstoðarheilbrigðis- og -félagsmálaráðherra hlýða á Stephen M. Hahn, yfirmann matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna. Fjórmenningarnir mættu fyrir þingnefnd í dag.
Robert Redfield, yfirmaður Sóttvarnarmiðstöðvar Bandaríkjanna, Anthony Fauci, helsti smitsjúkdómasérfræðingur Bandaríkjanna og Brett Ðþ Giroir, aðstoðarheilbrigðis- og -félagsmálaráðherra hlýða á Stephen M. Hahn, yfirmann matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna. Fjórmenningarnir mættu fyrir þingnefnd í dag. EPA/KEVIN DIETSCH

Anthony Fauci, helsti smitsjúkdómasérfræðingur Bandaríkjanna, varaði Bandaríkjaþing í dag við því hve þung byrði það mun verða fyrir bandarískt heilbrigðiskerfi hægist ekki á kórónuveirufaraldrinum fyrir haustið. Tilfellum kórónuveiru fjölgar enn í um helmingi ríkja Bandaríkjanna og telja heilbrigðissérfræðingar að verði faraldurinn enn í hæstu hæðum þegar inflúensuveiran lætur á sér kræla með haustinu muni það hafa alvarlegar afleiðingar.

Fauci mætti fyrir þingnefnd í dag ásamt yfirmönnum Sóttvarnarmiðstöðvar Bandaríkjanna, Matvæla- og lyfjaeftirlitsins og sérfræðingi hjá Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu.

Sérfræðingarnir sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu að óvíst sé hve lengi kórónuveirufaraldurinn muni vera í Bandaríkjunum en að þeir búist við að hann muni ekki hverfa nærri því strax. Þá sé óvíst hvað muni gerast ef faraldurinn verður enn í hæstu hæðum þegar „flensu-tíðin“ kemur í haust en að ljóst sé að það muni leika heilbrigðiskerfi landsins grátt.

„Ef að kórónuveiran og inflúensan verða virkar á sama tíma gæti það verið gríðarleg byrði fyrir heilbrigðiskerfið, sérstaklega hvað varðar sjúkrapláss, getu til að greina sýni, hlífðarbúnað fyrir starfsfólk og öryggi þess,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Vegna þess að það er líklegt að kórónuveiran verði hér áfram er mikilvægara en ella að vera bólusettur fyrir flensunni.“

Frá því að Fauci mætti síðast fyrir nefnd hafa ýmsar tilslakanir tekið gildi í Bandaríkjunum. Útgöngubanni hefur víða verið létt og fyrirtæki hafa opnað á ný. Það hefur þó verið gert mishratt milli ríkja og eru sum ríki mun varkárri en önnur. Meðal þeirra ríkja sem hafa gengið harðast fram í tilslökunum eru Texas, Flórída og Arizona en þar hefur kórónuveirutilfellum fjölgað gríðarlega síðustu vikurnar.


Tengdar fréttir

Læknarit gagnrýnir Trump harðlega fyrir viðbrögð hans við faraldrinum

Ritstjórn breska læknaritsins Lancet sakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um „mótsagnarkend og sundurlaus“ viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum og að hafa ýtt sóttvarnayfirvöldum til hliðar. Hún hvetur Bandaríkjamenn til að kjósa sér forseta sem skilur að flokkapólitík ætti ekki að stjórna lýðheilsumálum.

Varar við myrkasta vetri sögunnar

Bandaríkin standa mögulega frammi fyrir myrkasta vetri sögunnar. Þetta segir fyrrverandi yfirmaður bandarískrar alríkisstofnunar sem ber ábyrgð á því að þróa lyf gegn kórónuveirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×