Erlent

Grípa aftur til lokana eftir að 1.500 manns greindust með Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúðarhverfi þar sem starfsmenn kjötvinnslunnar búa hefur verið girt af.
Íbúðarhverfi þar sem starfsmenn kjötvinnslunnar búa hefur verið girt af. EPA/Friedmann Vogel

Yfirvöld í Norðurrín-Vestfalíu í Þýskalandi hafa gripið til félagsforðunar og lokunaraðgerða á nýjan leik eftir að minnst 1.500 starfsmenn kjötvinnslu greindust með Covid-19. Þetta er í fyrsta sinn sem svæði er lokað á nýjan leik eftir að byrjað var að létta á takmörkunum í maí.

Veitingastöðum, kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum hefur verið lokað, fundir hafa verið bannaðir og samkomur hafa verið takmarkaðar verulega, svo eitthvað sé nefnt.

Aðgerðirnar munu standa yfir í minnsta lagi til 30. júní en í millitíðinni ætla yfirvöld sér að fanga raunverulega útbreiðslu nýju kórónuveirunnar á svæðinu.

Samkvæmt frétt Spiegel hafa aðgerðirnar áhrif á 365 þúsund manns. Fólkinu hefur ekki verið bannað að yfirgefa svæðið sem um ræðir en þau hafa verið beðin um að sýna almenna skynsemi og ferðast ekki.

Enn sem komið er hafa einungis 24 aðilar sem vinna ekki í umræddri kjötvinnslu greinst með veiruna. Þar vinna um sjö þúsund manns og er búið að girða íbúðarhúsnæði þeirra af. Opinberir starfsmenn dreifa mat til þeirra og heilbrigðisstarfsmenn vinna að því að skima eftir veirunni meðal íbúa.

BBC segir að öðru svæði í héraðinu hafi verið lokað. Þar sé um að ræða hverfi í borginni Göttlingen. Þar hafa einhverjir íbúa veist að lögregluþjónum með kylfum, flöskum og jafnvel flugeldum.

Þýskalandi var hrósað mikið fyrir skipulögð og vel heppnuð viðbrögð þegar faraldur kórónuveirunnar komst á flug í Evrópu. Vel tókst að halda aftur af veirunni en tilfellum hefur farið fjölgandi í kjölfar þess að dregið var úr takmörkunum í maí.

Embættismenn segja útlit fyrir að önnur bylgja gæti skollið á landinu en yfirvöld eru bjartsýn um að komið verði í veg fyrir það.


Tengdar fréttir

WHO hvetur til notkunar á and­lits­grímum

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur horfið frá fyrri stefnu og hvetur nú fólk til þess að nota andlitsgrímur á almannafæri til þess að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar

Þjóðverjar afnema ferðatakmarkanir til Íslands

Ferðatakmörkunum sem hafa verið í gildi í Þýskalandi vegna kórónuveirufaraldursins gagnvart Evrópusambandslöndum, Bretlandi auk Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss verður aflétt með fyrirvörum frá og með 15. júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×