Erlent

Þjóðverjar afnema ferðatakmarkanir til Íslands

Kjartan Kjartansson skrifar
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar á takmörkunum á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins í dag.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar á takmörkunum á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins í dag. Vísir/EPA

Ferðatakmörkunum sem hafa verið í gildi í Þýskalandi vegna kórónuveirufaraldursins gagnvart Evrópusambandslöndum, Bretlandi auk Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss verður aflétt með fyrirvörum frá og með 15. júní.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í dag að banninu yrði aflétt svo lengi sem ekki væri komubann eða útgöngubann í gildi í ríkjunum sjálfum. Öll ríkin nema Noregur uppfylltu þau skilyrði en þar er bann við komum ferðamanna enn í gildi. Þá á þýska ríkisstjórnin eftir að taka afstöðu til ferðalaga til Spánar þar sem enn liggur ekki fyrir hvort að komubann verður framlengt, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Í stað ferðatakmarkananna ætla þýsk stjórnvöld að taka upp ferðaráðgjöf sem verður uppfærð daglega í ljósi fjölda smitaðra í hverju ríki fyrir sig, að sögn Süddeutsche Zeitung. Þýsk stjórnvöld vara þó enn við ónauðsynlegum ferðalögum til Bretlands á meðan krafa um fjórtán daga sóttkví er í gildi þar.

Íslensk stjórnvöld hyggjast aflétta takmörkunum á ferðalög 15. júní sömuleiðis. Þá verður ferðamönnum boðið upp á að velja frekar að gangast undir skimun eða framvísa vottorði frá heimalandi sínu í stað þess að þurfa að sæta fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×