Íslenski boltinn

Ágúst: Lögðum allt í þetta en vorum ekki nógu góðir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Gróttu létu vel í sér heyra á fyrsta heimaleik liðsins í efstu deild.
Stuðningsmenn Gróttu létu vel í sér heyra á fyrsta heimaleik liðsins í efstu deild. vísir/hag

Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, viðurkenndi að Valur hefði verið sterkari aðilinn í leik liðanna í dag. Valsmenn unnu 0-3 sigur sem var aldrei í hættu.

„Við fengum frábæran stuðning og þetta var okkar dagur, fyrsti heimaleikurinn í efstu deild. En við vorum einu númeri of litlir í baráttu við öflugt Valslið,“ sagði Ágúst við Vísi eftir leik. „Þetta var sanngjarn sigur hjá Val. Við lögðum allt í þetta en vorum ekki nógu góðir.“

Ágúst sagði að sínir menn hefðu ekki verið nógu ákveðnir og orðið undir í baráttunni gegn Valsmönnum.

„Við vorum ekki nógu grimmir á boltann um allan völl. Lið eins og Valur refsar og þeir gerðu það vel. Þeir fengu óþarflega langan tíma með boltann og það var erfitt að eiga við þá,“ sagði Ágúst.

„Ég hefði viljað að við hefðum verið aðeins grimmari í leiknum og unnið annan boltann oftar í kringum miðjusvæðið.“

Grótta hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í efstu deild með markatölunni 0-6 og í raun ekki séð til sólar, hvorki gegn Breiðabliki né Val. 

En er brekkan fyrir nýliðana af Nesinu brattari en Ágúst bjóst við?

„Já, kannski. En Breiðablik og Valur eru mjög erfiðir andstæðingar sem er báðum spáð toppbaráttu. Við förum í alla leiki til að fá eitthvað út úr þeim og við þurfum bara að halda áfram. Það eru bara tveir leikir búnir og tuttugu eftir,“ sagði þjálfarinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×