Íslenski boltinn

Pepsi Max mörk kvenna: Klúður hjá Selfossi að fá á sig nákvæmlega eins mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannssdóttir fagnar hér seinna marki Blika á Selfossi í gær sem kom eftir að Alexandra mætti á nærstöngina í löngu innkasti Sveindísar Jane Jónsdóttur.
Alexandra Jóhannssdóttir fagnar hér seinna marki Blika á Selfossi í gær sem kom eftir að Alexandra mætti á nærstöngina í löngu innkasti Sveindísar Jane Jónsdóttur. Skjámynd/S2 Sport

Pepsi Max mörk kvenna ræddu leik Selfossliðsins í fyrstu tveimur umferðunum í deildinni en liðið sem ætlaði sér að vinna Íslandsmeistaratitilinn er hvorki búið að skora mark né fá stig í fyrstu tveimur leikjum sínum.

Selfossliðið tapaði 1-0 á móti Fylki í 1. umferð og 2-0 á móti Breiðabliki í 2. umferð.

„Mér fannst þær sterkari í fyrri hluta leiksins á móti Fylki og mér fannst sterkari í seinni hálfleik í þessum leik. Ég er ósammála Alfreð (Jóhannssyni þjálfara Selfoss) því mér fannst Blikarnir vera sterkari í fyrri hálfleik,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir.

Bára mælir með því að Alfreð Jóhannsson og leikmenn hans horfi innávið þegar kemur að leita að ástæðum fyrir því að liðið er enn stigalaust eftir tvær umferðir.

„Í báðum þessum leikjum þá getur Selfoss kennt sér sjálft um þetta því öll þrjú mörkin sem þær eru búnar að fá á sig í fyrstu tveimur umferðum er bara klúður,“ sagði Bára.

„Þarna er bara samskiptaleysi á milli varnarmanna. Af hverju skorar Breiðabliki nákvæmlega eins mark í seinni hálfleiknum og þær skoruðu í þeim fyrri? Þær eru búnar að sjá uppleggið,“ sagði Bára.

„Bæði mörkin koma eftir langt innkast frá Sveindísi og bæði mörkin koma eftir hlaup frá Alexöndru sem flikkar boltanum. Af hverju tekur enginn ábyrgð á henni og dekkar hana. Þetta er alveg eins,“ sagði Bára.

„Ástæðan fyrir því að ég set út á þetta tiltekna mark er að þær eru búnar að skora svona mark fyrr í leiknum. Þær vita hvað hún er að fara að geta og þær vita hvert hún er að fara að kasta. Kláriði mennina ykkar,“ sagði Bára.

„Mér finnst þetta of dýrt fyrir þær að fá öll þrjú mörkin á sig vegna einhvers samskiptaleysis í varnarleiknum. Mér finnst þær búnar að vera með yfirhöndina á einhverjum tímapunkti í báðum leikjum,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir en það má sjá alla umfjöllunina hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna: Selfossliðið í tveimur fyrstu umferðunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×