Erlent

Dæmdi norskan lög­reglu­mann í 21 árs fangelsi fyrir spillingu og fíkni­efna­inn­flutning

Atli Ísleifsson skrifar
Málið hefur vakið mikla athygli í norskum fjölmiðlum síðustu ár, en Eirik Jensen hefur neitað öllum sakargiftum.
Málið hefur vakið mikla athygli í norskum fjölmiðlum síðustu ár, en Eirik Jensen hefur neitað öllum sakargiftum. EPA

Áfrýjunardómstóll í Borgarþingi í Ósló dæmdi í morgun lögreglumanninn Eirik Jensen í 21 árs fangelsi fyrir spillingu og aðild að smygli á um 13,9 tonnum af hassi til Noregs. NRK segir frá þessu. 

Jensen starfaði í deild lögreglunnar sem rannsakaði fíkniefnamál og skipulagða glæpastarfsemi.

Rétturinn staðfesti með þessu dóm lægra dómstigs, en einnig réttað yfir eiturlyfjabaróninum Gjermund Cappelen, samverkamanni Jensen, sem viðurkenndi fyrir dómi að hann hafi smyglað miklu magni fíkniefna til landins. Sagðist hann hafa gert þetta með aðstoð Jensen. Dómurinn yfir Capellen var mildaður um tvö ár, úr fimmtán í þrettán ár.

Málið hefur vakið mikla athygli í norskum fjölmiðlum síðustu ár, en Jensen hefur neitað öllum sakargiftum. Brot Jensen eiga að hafa staðið yfir tuttugu ára tímabil.

Í dómsorðum kemur fram að 1.418.000 norskar krónur, sem fundust í eigu Jensen skulu gerð upptæk. Samsvarar það rúmar tuttugu milljónir íslenskra króna.

Jensen var einnig ákærður um brot á vopnalögum – þar meðal ólöglega vörslu á tíu skotvopnum. Hann hafði játað sekt að hluta í þeim ákærulið.

Jensen hafði áður sagt Cappelen hafi um árabil verið einn af hans mikilvægustu uppljóstrurum í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi í borginni og að hann hafi ekki haft neina vitneskju um umfangsmikið eiturlyfjasmygl Cappelen til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×