Erlent

Þrír ind­verskir her­menn létust í á­tökum við kín­verska herinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrír indverskir hermenn létu lífið í átökum við kínverska herinn við landamæri ríkjanna í Kasmír.
Þrír indverskir hermenn létu lífið í átökum við kínverska herinn við landamæri ríkjanna í Kasmír. Getty/Faisal Khan

Þrír indverskir hermenn létu lífið í átökum við kínverska herinn í Ladakh vegna deilna um Kasmír héraðið. Samkvæmt upplýsingum frá indverska hernum sem birtar voru á vef breska ríkisútvarpsins munu yfirmenn beggja herja funda til að koma í veg fyrir frekari átök og bættu við að báðar hliðar hafi orðið fyrir áfalli.

Kínversk yfirvöld brugðust við þessu með því að biðja Indland um að beita ekki einhliða aðgerðum eða búa til vandræða. Kína hefur einnig sakað Indland um að hafa farið yfir landamærin og að hafa ráðist á kínverska hermenn.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Zhao Lijian, er sagður hafa sakað indverska herinn um að hafa farið yfir landamærin án leyfis, ögrað og ráðist á kínverska hermenn sem olli því að átök brutust út milli landamæravarða landanna.

Kínversk yfirvöld hafa ekki greint frá mannfalli innan sinna raða. Þó hefur kínverska fréttablaðið Global Times greint frá því að Indland hafi verið ávítað vegna atviksins.

Spenna hefur aukist gríðarlega milli landanna tveggja undanfarið og hefur Indland sakað Kína um að hafa sent þúsundir hermanna inn í Galwan dalinn í Ladakh.

Dauðsföllin eru þau fyrstu í áratugi í átökum milli ríkjanna tveggja. Aðeins eitt stríð hefur verið háð hingað til, árið 1962, sem Kína sigraði með yfirburðum. Indland hefur þá sakað Kína um að vera með viðveru á stóru svæði sem tilheyrir Indlandi. Löndin hafa ítrekað fundað til að ræða landamæradeilurnar en aldrei hafa viðræðurnar borið árangur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×