Erlent

Hæsti­réttur Banda­ríkjanna segir ó­lög­legt að mis­muna starfs­fólki á grund­velli kyn­hneigðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hæstiréttur Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna. MICHAEL REYNOLDS/EPA

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að það brjóti í bága við lög landsins að segja upp starfsfólki á grundvelli kynhneigðar eða kyngervis.

Í réttinum sitja níu dómarar, en sex þeirra komust að þessari niðurstöðu. Álitaefni málsins sneri að því hvort túlka mætti ákvæði í alríkislögum um borgaraleg réttindi, þar sem bann er lagt við því að mismuna fólki á grundvelli kynferðis, á þá vegu að kynhneigð og kyngervi félli þar undir. Þegar talað er um kyngervi er átt við félagslega mótað kyn einstaklings, óháð líffræðilegu kyni.

Hæstaréttardómarinn Neil Gorsuch, sem skipaður var af Donald Trump Bandaríkjaforseta, úrskurðaði með meirihluta réttarins í málinu.

„Vinnuveitandi sem rekur einstakling fyrir að vera samkynhneigður eða trans, rekur þá manneskju fyrir eiginleika eða gjörðir sem hann hefði ekki gert athugasemd við hjá manneskju af öðru líffræðilegu kyni,“ skrifaði Gorsuch meðal annars í rökstuðningi við ákvörðun sína.

Hann hafnaði þá þeirri hugmynd að ekki mætti gera ráð fyrir að löggjafinn hefði ekki haft jafn víðtæka túlkun í huga og dómurinn hefur nú staðfest.

„Takmörk á ímyndunarafli löggjafans gefa enga ástæðu til þess að hundsa kröfur hans,“ skrifar Gorsuch, og á þar við að ekki sé ljóst að með orðalagi laganna, þar sem sérstaklega er fjallað um kyn einstaklings, geti ekki átt við víðtækari merkingu orðsins.

Fimmti kafli laga um borgaraleg réttindi frá 1964 meinar vinnuveitendum að mismuna starfsfólki sínu á grundvelli kyns, kynþáttar, litarhafts, uppruna og trúarbragða. Hæstiréttur hefur nú túlkað löggjöfina á þann hátt að ekki megi mismuna fólki vegna kynhneigðar sinnar eða kyngervis.

Úrskurður réttarins leysir þar með úr þremur aðskildum málum einstaklinga sem töldu sig hafa verið rekna úr starfi þar sem þeir voru samkynhneigðir eða trans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×