Íslenski boltinn

Martin valdi mörk gegn Val sem sín uppáhalds eftir allt sem gekk á í fyrra

Sindri Sverrisson skrifar
Gary Martin staldraði ekki lengi við hjá Val.
Gary Martin staldraði ekki lengi við hjá Val. VÍSIR/DANÍEL

Enski markahrókurinn Gary Martin valdi tvö mörk gegn Val sem sín uppáhalds mörk á ferlinum, í þættinum Topp 5 á Stöð 2 Sport.

Viðskilnaður Martin við Val var ekki eins og best verður á kosið en honum var meinað að taka þátt á æfingum liðsins áður en að leiðir skildu svo þegar örfáar vikur voru liðnar af síðasta Íslandsmóti. Hann er nú leikmaður ÍBV og skoraði einmitt bæði mörk ÍBV í 2-1 sigri á Val síðasta haust. Fyrra markið er í næstmestu uppáhaldi hjá Martin:

„Þetta var ekki frábært mark en betra en seinna markið. Ég valdi það vegna þess hvernig mér leið, að hafa náð að skora eftir það sem gekk á síðasta sumar. Ég hefði getað valið fimm mörk gegn Val, en það hefði verið svolítið heimskulegt. En markið valdi ég vegna þess hvernig mér leið við að skora það,“ sagði Martin.

Hans uppáhalds mark kom hins vegar þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2013, með 2-1 sigri gegn Val á Hlíðarenda þar sem Martin skoraði bæði mörkin.

„Mark númer eitt hjá mér er það mikilvægasta sem ég hef skorað og eitt það besta einnig. Þetta var fyrsta markið þegar við tryggðum okkur titilinn með útisigri á Val 2013. Ég var svo heppinn að skora bæði mörkin en fyrra markið er eitt það besta sem ég hef skorað því það gaf okkur forystuna. Fyrir leikmann KR er ekki til betri staður til að sækja sigur á, og það var stórkostleg tilfinning að vinna titilinn og skora bæði mörkin í sigri á Val,“ sagði Martin, en mörkin má sjá hér að neðan.

Klippa: Topp 5 - Gary Martin valdi sín bestu mörk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×