Íslenski boltinn

Ráðherra lagði hönd á plóg fyrir Fjölni

Sindri Sverrisson skrifar
Fjölnismenn leika meðal þeirra bestu í sumar.
Fjölnismenn leika meðal þeirra bestu í sumar. vísir/bára

Íslandsmótið í fótbolta er handan við hornið og knattspyrnufélög landsins í óða önn við undirbúning sem meðal annars felst í því að selja sem flest árskort á heimaleiki til stuðningsmanna.

Fjölnismenn fengu aðstoð í þessum efnum frá utanríkisráðherranum Guðlaugi Þór Þórðarsyni í gærkvöld, en hann var þá mættur höfuðstöðvar þeirra í Dalhúsum til að hringja í fólk og fá það til að kaupa sér árskort. Slík kort gilda á heimaleiki karla- og kvennaliðs félagsins, utan bikarleikja, og kosta á bilinu 15-25 þúsund krónur, eða 4.900 krónur fyrir 16-25 ára.

Karlalið Fjölnis leikur á ný í efstu deild í sumar og mætir Víkingi R. í 1. umferð á sunnudaginn, á Víkinsgvelli, en fyrsti leikur liðsins á Extravellinum verður gegn Stjörnunni 21. júní. Tímabilið hófst í gærkvöld hjá kvennaliði Fjölnis með 5-0 tapi gegn Augnabliki í Mjólkurbikarnum, en liðið sækir Gróttu heim í fyrsta leik sínum í Lengjudeildinni föstudaginn 19. júní. Viku síðar er fyrsti heimaleikur liðsins í deildinni þegar Haukar koma í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×