Erlent

Draga til baka umdeilda rannsókn á malaríulyfi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki hefur verið sýnt fram á virkni hydroxychloroquine gegn Covid-19. Rannsókn sem benti til þess að lyfið yki dánartíðini sjúklinga með sjúkdóminn hefur þó verið dregin til baka.
Ekki hefur verið sýnt fram á virkni hydroxychloroquine gegn Covid-19. Rannsókn sem benti til þess að lyfið yki dánartíðini sjúklinga með sjúkdóminn hefur þó verið dregin til baka. AP/Ben Margot

Höfundar rannsóknar sem benti til þess að aukin hætta á dauða fylgdi notkun á malaríulyfinu hydroxychloroquine gegn Covid-19 hafa dregið hana til baka eftir að gagnrýni kom fram á áreiðanleika gagna sem lágu til grundvallar henni. Tilraunir með lyfið voru stöðvaðar eftir að niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á dögunum.

Hydroxychloroquine hefur orðið að hápólitísku deiluefni eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hampaði lyfinu sem nokkurs konar töfralausn gegn kórónuveirufaraldrinum og sagðist jafnvel taka það sjálfur þrátt fyrir að hann hefði ekki greinst smitaður af veirunni. Ekki hefur verið sýnt fram á virkni lyfsins gegn Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur.

Breska læknariti Lancet hefur nú tekið grein um rannsóknina úr birtingu eftir að þrír höfunda hennar drógu hana til baka. Að sögn Reuters-fréttastofunnar vísuðu höfundarnir til áhyggna af gæðum og áreiðanleika gagnanna sem þeir notuðu. Þeir gætu ekki ábyrgst gögnin eftir að bandaríska einkafyrirtækið Surgisphere, sem útvegaði þau, neitaði að gera þau aðgengileg fyrir óháða endurskoðun.

Sapan Desai, forstjóri Surgisphere, sem var einn höfunda greinar um rannsóknina, hefur ekki tjáð sig um að greinin hafi verið dregin til baka. Önnur rannsókn sem byggði einnig á gögnum Surgisphere en um annað efni var tekin úr birtingu hjá New England Journal of Medicine (NEJM), af sömu ástæðum.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tilkynnti í gær að hún ætlaði að halda áfram tilraunum með malaríulyfið í ljósi þess að rannsóknin hefur verið dregin til baka.

Chris Chambers, prófessor í sálfræði og sérfræðingur hjá breskum samtökum um gegnsæi í vísindum, segir að Lancet og NEJM ættu að rannsaka hvernig rannsóknirnar komust í gegnum ritrýni og yfirferð ritstjórnar.


Tengdar fréttir

Efast um forsendur rannsóknar á malaríulyfi gegn Covid-19

Breska læknaritið Lancet lýsti í gær áhyggjum af því að gögn sem notuð voru í rannsókn sem komst að þeirri niðurstöðu að malaríulyf tengdist auknum dánarlíkum hjá sjúklingum með Covid-19 væru ekki áreiðanleg. Lyfið og notkun þess hefur orðið hápólitísk eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti mærði það sem töfralausn við kórónuveiruheimsfaraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×