Erlent

Geor­ge Floyd hafði greinst með Co­vid-19

Atli Ísleifsson skrifar
George Floyd lést í Minneapolis 25. maí síðastliðinn.
George Floyd lést í Minneapolis 25. maí síðastliðinn. Getty

Bandaríkjamaðurinn George Floyd, sem lést eftir að lögreglumaður kraup á hálsi hans við handtöku í Minneapolis í síðasta mánuði, var með sjúkdóminn covid-19. Þetta kemur fram í krufningarskýrslu að því er fram kemur í bandarískum fjölmiðlum.

Í hinni tuttugu síðna skýrslu kemur fram að kórónuveirusmitið hafi ekki átt þátt í dauða Floyd, en áður hefur verið greint frá því að Floyd hafi látist af völdum köfnunar.

Í skýrslunni segir að Floyd hafi greinst með Covid-19 þann 3. apríl og að „líklegast“ sé að hann hafi verið einkennalaus.

Dauði Floyd hefur leitt til mikillar mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar um heim.

Yfirvöld í Minnesota í Bandaríkjunum hafa nú hert ákæruna á hendur lögreglumanninum fyrrverandi, Derek Chauvin, sem kraup á hálsi Floyd þann 25. maí síðastliðinn.

Chauvin hafði áður verið ákærður fyrir morð af þriðju gráðu og manndráp af annarri gráðu vegna andlátsins, en hann hefur nú einnig verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu. Stigsmunur er á ákærunum, morð af þriðju gráðu felur í sér að sakborningurinn hafi ekki endilega ætlað sér drepa heldur hafi viðkomandi hagað sér á hættulegan hátt án þess að skeyta um líf annarra. Til þess að sakfella Chauvin fyrir morð af annarri gráðu þurfa saksóknarar að sýna fram á að hann hafi ætlað sér að drepa Floyd.

Sömuleiðis var greint frá því í gær að þrír aðrir lögreglumenn sem voru viðstaddir handtökuna, hafi verið ákærðir fyrir að hafa aðstoðað eða stuðlað að morðinu á Floyd.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×