Erlent

Trudeau þagði vel og lengi áður en hann svaraði spurningu um Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Justin Trudeau er forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau er forsætisráðherra Kanada. Getty/Abdulhamid Hosbas

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, valdi orð sín afar gætilega er hann var spurður um ástandið í Bandaríkjunum og viðbrögð Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, við því, á blaðamannafundi í dag.

Dauði hins 46 ára gamla George Floyd sem lét lífið eftir afskipti lögreglunnar í Minneapolis hefur hrundið af stað mótmælaöldu um gervöll Bandaríkin. Á blaðamannafundinum var Trudeau spurður álits á ástandinu í Bandaríkjunum, og hvað honum findist um viðbrögð kollega síns hinum megin við landamærin.

Í stað þess að svara um hæl þagði Trudeau. Eftir nokkrar sekúndur virtist hann ætla að segja eitthvað, en hætti við. Alls þagði hann í 21 sekúndu áður en svarið komið.

„Við horfum öll á með hryllingi og erum með áhyggjur af því hvað er í gangi í Bandaríkjunum,“ sagði Trudeau varlega.

„Þetta er tími til þess að koma fólki saman, tími til að hlusta, tími til að átta sig á því hvaða óréttlæti lifir áfram, þrátt fyrir þau framfaraskref sem stigin eru í gegnum árin og áratugina,“ sagði Trudeau áður en hann minnti Kanadabúa á það að þeir væru ekki lausir við það óréttlæti sem væri að sýna sig í Bandaríkjunum.

Athygli vakti að nafn Trump eða afstaða hans til þeirra sem eru að mótmæla kom aldrei til tals í svari Trudeau en myndband af ræðu hans má sjá hér að neðan.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.