Innlent

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boðar atkvæðagreiðslu um verkfall

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Samninganefndir hjúkrunarfræðinga og ríkisins funduðu hjá Ríkissáttasemjara í dag.
Samninganefndir hjúkrunarfræðinga og ríkisins funduðu hjá Ríkissáttasemjara í dag. Vísir/Einar

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Fíh, hefur ákveðið að boða til rafrænnar atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu um verkfallsaðgerðir. Samningarviðræður hafa nú staðið yfir í mánuð eftir að kjarasamningur var felldur í lok apríl en hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir frá því í mars 2019.

Samninganefndir hjúkrunarfræðinga og ríkisins funduðu hjá Ríkissáttasemjara í Karphúsinu í dag. Fundinum er nú lokið án niðurstöðu og ekki hefur verið boðað til annars fundar. 

Mikillar óánægju hefur gætt meðal hjúkrunarfræðinga vegna stöðunnar og mikið hefur mætt á stéttinni í kórónuveirufaraldrinum sem geisað hefur um landið undanfarna mánuði.

Rafræn atkvæðagreiðsla hefst klukkan 20 í dag, þriðjudaginn 2. júní, og mun henni ljúka föstudaginn 5. júní klukkan 12 á hádegi. Rúmlega 2.500 hjúkrunarfræðingar starfa hjá ríkinu og má vænta niðurstöðu úr atkvæðagreiðslunni eftir hádegi á föstudag.

Kosið verður um ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga sem stefnt er á að hefjist klukkan 8:00 mánudaginn 22. júní næstkomandi verði verkfallsaðgerðir samþykktar í atkvæðagreiðslu og náist samningar ekki fyrir þann tíma. Fram kemur í tilkynningu frá Fíh að komi til verkfalls muni það hafa áhrif á allar heilbrigðisstofnanir í rekstri ríkisins, auk annarra vinnustaða hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×