Enski boltinn

Klopp ánægður með að vera kominn aftur | Lofar skrúðgöngu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp er svona ánægður með að vera mættur aftur til starfa á æfingasvæði Liverpool.
Klopp er svona ánægður með að vera mættur aftur til starfa á æfingasvæði Liverpool. EPA-EFE/PETER POWELL

Jürgen Klopp, þjálfari verðandi Englandsmeistara Liverpool, gæti ekki verið ánægðari með að vera snúinn aftur á æfingavöllinn að horfa á „frábæra fótboltaliðið sitt.“ Þetta sagði hann myndbandsviðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, í morgunsárið.

Ræddi hann til að mynda hvernig það væri að vera mættur aftur á æfingasvæðið, hvernig það yrði fyrir félögin að spila á tómum leikvöngum og ástand leikmanna eftir hartnær þriggja mánaða pásu sökum kórónufaraldursins.

„Það er ótrúlegt hvað ég hef saknað þess mikið,“ sagði Klopp meðal annars í viðtalinu.

Liverpool, líkt og önnur lið ensku úrvalsdeildarinnar, eru í miðjum undirbúningi fyrir lokakafla tímabilsins en deildinni var frestað þann 13. mars. Mun hún fara aftur af stað þann 17. júní og er ljóst að það verður þétt leikið til að klára tímabilið sem fyrst.

Liverpool er með 25 stiga forystu á toppi deildarinnar og fari svo að það vinni sinn fyrsta leik og Manchester City tapi sínum þá eru liðsmenn Klopp orðnir Englandsmeistarar.

Klopp segir þó mikla vinnu framundan og að „Liverpool vilji vinna eins marga leiki og mögulegt er.“

„Við erum ekki enn orðnir meistarar og við munum gera okkar besta til að ná í þau 27 stig sem eru eftir í pottinum,“ sagði Klopp. Takist honum ætlunarverk sitt þá endar Liverpool með 109 stig sem væri nýtt stigamet í ensku úrvalsdeildinni.

Það er ljóst að þeir leikir sem verða leiknir fram á haust verða fyrir luktum dyrum og myndi bikarafhending Liverpool fara fram á tómum leikvangi. Það yrði þó skrúðganga, á endanum.

„Það verður skrúðganga þegar það er öruggt að halda fjöldasamkomur. Við munum fagna með stuðningsmönnum okkar um leið og hægt er. Ég get lofað því að það verður skrúðganga líka, sama hvenær það yrði.“

Varðandi heima- og útileiki þá segir Þjóðverjinn það ekki skipta máli en það gæti verið að sumir leikjanna muni fara fram á hlutlausum völlum.

„Það er engin hjálp í að spila á heimavelli þar sem það verða engir stuðningsmenn í stúkunni svo ég hef ekki áhyggjur af því að spila á hlutlausum völlum. Ef þú horfir á þýsku deildina þá var ekki mikið af sigrum á heimavelli. Ef hinn valmöguleikinn er að spila ekki þá skal ég spila hvar sem er. Mér gæti ekki verið meira sama hvar leikirnir fara fram,“ sagði Klopp jafnframt. Þýska deildin fór af stað nýverið og virðast lið græða lítið sem ekkert á því að spila á heimavelli þegar stúkurnar eru tómar.

„Leikmenn komu til baka í góðu ásigkomulagi en margir þeirra þurftu á hvíld að halda eftir að hafa spilað þétt í langan tíma,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×