Erlent

Hafna hugmyndum forsetans um að herinn verði látinn kveða niður mótmælin

Vésteinn Örn Pétursson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Ríkisstjórar nokkurra ríkja í Bandaríkjunum eru ósammála hugmyndum forsetans um að herinn eigi að hafa aðkomu að viðbrögðum við mótmælunum.
Ríkisstjórar nokkurra ríkja í Bandaríkjunum eru ósammála hugmyndum forsetans um að herinn eigi að hafa aðkomu að viðbrögðum við mótmælunum. Chip Somodevilla/Getty

Ríkisstjórar nokkurra ríkja í Bandaríkjunum hafa þegar slegið út af borðinu þá hugmynd Trump Bandaríkjaforseta að hermenn verði sendir út á götur borga til að kveða niður mótmælaölduna í landinu en þar hefur nú verið mótmælt í sjö daga í röð.

Þjóðvarðliðið, flokkar sjálfboðaliða, hafa þegar verið sendir á vettvang en öðru máli þykir gegna um atvinnuhermenn, sem Trump hótaði í gær að yrði beitt gegn mótmælendunum. Það er enda í bága við bandarísk lög að beita hermönnum á bandarískri grund, nema með sérstakri lagasetningu og hefur slíkum úrræðum örsjaldan verið beitt í sögu landsins.

Ríkisstjórarnir sem hafa mótmælt hugmynd forsetans eru allir úr röðum Demókrata og segir J.B Pristzker, ríkisstjóri í Illinois til að mynda, að hann efist um að forsetinn hafi vald til að senda herinn inn í ríkið. Hann sakar Trump einnig um að hella olíu á eldinn með tali um beitingu hersins, í stað þess að reyna að lægja öldurnar.

Þá hefur Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, sagt að ríkið eigi þess kost að nýta sér 13 þúsund þjóðvarðliða, hvenær sem þurfa þyki. Hann vill ekki notast við bandaríska herinn, eins og Trump hefur talað um.

„Ég segi takk, en nei takk,“ hefur AP-fréttastofan eftir Cuomo.

Mótmæli næturinnar hafa haldið áfram víðast hvar en útgöngubann er í gildi í fjörutíu borgum í næstum öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna. Í St. Louis eru fjórir lögreglumenn særðir eftir að hafa orðið fyrir skotum, en ekki er talið að þeir séu í lífshættu og í Buffalo í New York ríki slösuðust tveir lögreglumenn þegar ekið var á þá.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×