Enski boltinn

Fjögur smit hjá ensku úrvalsdeildarliðunum

Sindri Sverrisson skrifar
Liðin í ensku úrvalsdeildinni hafa síðustu daga mátt æfa saman í fimm manna hópum og ýmislegt er gert til að draga úr smithættu.
Liðin í ensku úrvalsdeildinni hafa síðustu daga mátt æfa saman í fimm manna hópum og ýmislegt er gert til að draga úr smithættu. VÍSIR/GETTY

Fjórir af 1.008 einstaklingum greindust með kórónuveiruna í þriðju umferðinni af prófum hjá ensku úrvalsdeildarliðunum í fótbolta karla en prófað var í dag og í gær.

Ekki er tekið fram hvort að um leikmenn eða annað starfsfólk var að ræða, eða hvort að um var að ræða einhverja af þeim sem settir voru í sjö daga einangrun eftir að hafa greinst með smit í fyrstu umferð prófana.

Ensku úrvalsdeildarfélögin samþykktu einróma í dag að æfingar mættu nú fara fram með eðlilegum hætti, það er að segja með snertingum og án fjöldatakmarkana. Fjórða umferð smitprófa verður á morgun og á föstudag, og þá verður hægt að prófa allt að 60 manns hjá hverju félagi.

Í fyrstu umferð prófana greindust sex af 748 með smit, og dagana 19.-22. maí voru gerð 996 próf og greindust þá tvö smit.

Ekki hefur verið spilað í ensku úrvalsdeildinni síðan í mars en stjórnvöld í Englandi hafa gefið leyfi fyrir keppnisíþróttum frá og með 1. júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×