Íslenski boltinn

16 dagar í Pepsi Max: Fjórtán verðlaunatímabil FH í röð og Atli Viðar á þrettán gull eða silfur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson vann átta gull og fimm silfur á Íslandsmótinu með FH-liðinu frá 2003 til 2016.
Atli Viðar Björnsson vann átta gull og fimm silfur á Íslandsmótinu með FH-liðinu frá 2003 til 2016.

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 16 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

FH-ingar bættu met KR og Vals sumarið 2015 með því að vinna verðlaun á þrettánda tímabilinu í röð. Lið KR og Vals höfðu náð að vera í verðlaunasæti tólf ár í röð á milli heimsstyrjaldanna þar af voru þau bæði í efstu sætunum í ellefu ár í röð frá 1927 til 1937.

FH-liðið endaði á að því að vera í verðlaunasæti á fjórtán tímabilum í röð frá 2003 til 2016. FH varð átta sinnum Íslandsmeistari á þessum tíma og fékk sex silfurverðlaun að auki. FH-ingar náðu að verja Íslandsmeistaratitil sinn fjórum sinnum eða 2005, 2006, 2009 og 2016.

FH-liðið féll alls níu fleiri verðlaun en næsta lið á árunum 2003 til 2016 en KR-ingar unnu til fimm verðlauna á Íslandsmótinu á þessum árum.

Atli Viðar Björnsson var leikmaður FH öll þessi fjórtán tímabil en var lánaður til 1. deildarliðs Fjölnis sumarið 2007 þegar FH fékk silfur.

Atli Viðar vann til verðlaun á Íslandsmóti á þrettán tímabilum með Hafnarfjarðarliðinu. Á þessum þrettán tímabilum var Atli Viðar með 105 mörk í 221 leik.

Atli Guðnason spilaði á tólf af þessum fjórtán tímabilum og Freyr Bjarnason var með á ellefu þeirra. Davíð Þór Viðarsson er síðan fjórði leikmaðurinn hjá FH sem náði að vera með á tíu tímabilum eða meira á þessum fjórtán árum.

  • Flest ár í röð í verðlaunasæti í efstu deild:

  • 14 - FH 2003-2016
  • 12 - Valur 1927-1938
  • 12 - KR 1926-1937
  • 8 - Fram 1912-1919
  • 6 - ÍA 1992-1997
  • 6 - Valur 1940-1945
  • 6 - Fram 1921-1926
  • 5 - Valur 1984-1988
  • 5 - ÍA 1957-1961
  • 5 - ÍA 1951-1955
  • Flest verðlaunatímabil spiluð með FH frá 2003 til 2016:
  • 13 - Atli Viðar Björnsson (8 gull - 5 silfur)
  • 12 - Atli Guðnason (7 gull - 5 silfur)
  • 11 - Freyr Bjarnason (6 gull - 5 silfur)
  • 10 - Davíð Þór Viðarsson (7 gull - 3 silfur)
  • 9 - Ólafur Páll Snorrason (4 gull - 5 silfur)
  • 9 - Pétur Viðarsson (5 gull - 4 silfur)
  • 9 - Guðmundur Sævarsson (5 gull - 4 silfur)
  • 9 - Ásgeir Gunnar Ásgeirsson (5 gull - 4 silfur)
  • 9 - Tommy Fredsgaard Nielsen (5 gull - 4 silfur)
  • 8 - Daði Lárusson (5 gull - 3 silfur)
  • 7 - Matthías Vilhjálmsson (4 gull - 3 silfur)
  • Flest verðlaun félaga frá 2003-2016:
  • 14 - FH (8 gull - 6 silfur)
  • 5 - KR (3 gull - 2 silfur)
  • 3 - Breiðablik (1 gull - 2 silfur)
  • 2 - Valur (1 gull - 1 silfur)
  • 2 - Stjarnan (1 gull - 1 silfur)
  • 1 - Keflavík (0 gull - 1 silfur)
  • 1 - ÍBV (0 gull - 1 silfur)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×