Innlent

Heildar­greiðslur ríkisins vegna sótt­kvíar tæp­lega þre­faldast

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Vilhelm

Heildargreiðslur ríkisins vegna greiðslu launa til þeirra sem sætt hafa sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda verða tveir milljarðar króna. Upphaflega var gert ráð fyrir að greiðslur vegna þessa myndu nema 700 milljónum króna, en upphæðin verður hærri þar sem mun fleiri fóru í sóttkví en fyrst var ráð fyrir gert.

Þetta kemur fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra til fjáraukalaga. Þar er óskað eftir tveggja milljarða fjárheimild vegna málsins.

Í athugasemdum segir að með sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, ASÍ og SA frá 5. mars síðastliðinn hafi náðst sátt um samfélagslega nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar. Kom þar fram að markmið sóttvarna væri að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gengur yfir.

„Sóttkví hefur verið lykilráðstöfun í baráttunni við veiruna og markmiðið með greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði er að verja einstaklinga gegn tekjutapi og stuðla þannig að því að fólk fari eftir fyrirmælum stjórnvalda um að fara í sóttkví. Hámarksfjárhæð launa í sóttkví er 630 þús.kr. á mánuði miðað við heilan almanaksmánuð. Upphaflega var gert ráð fyrir að heildargreiðslur vegna þessa yrðu um 700 m.kr. en nú er ljóst að þær verða hærri þar sem mun fleiri hafa farið í sóttkví en upphaflega var reiknað með, auk þess sem tímabilið hefur verið lengt. Í fyrstu var gert ráð fyrir að greiðslutímabilið næði til 30. apríl 2020 en það hefur verið framlengt til 30. september 2020,“ segir í frumvarpinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×